Innlent

Verja 200 milljónum til að kanna mögu­leika á flug­velli í Hvassa­hrauni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ríki og borg hafa samþykkt að verja 200 milljónum króna til að kanna möguleikann á nýjum innanlandsflugvelli í Hvassahrauni. Með því samkomulagi er ljóst að Reykjarvíkurflugvöllur mun áfram þjóna innanlandsflugi, æfinga- og kennsluflugi næstu fimmtán til tuttugu árin.

Framsóknarflokkurinn hefur haft það á stefnuskrá sinni að flugvöllur ætti að vera áfram í Vatnsmýri í Reykjavík. Formaður flokksins skrifaði undir samkomulagið við Reykjavíkurborg um rannsóknir í Hvassahrauni í vikunni. Í Víglínunni í dag fagnaði hann þessu samkomulagi því nú verði hægt að rífast um staðreyndir.

„Samkvæmt aðalskipulaginu, þá á þessi völlur að loka 2022 og 2024. Menn láta eins og þetta sé svona. Sumir hafa haldið því fram að Hvassahraun sé bara tilbúið. Aðrir segja „Hann verður aldrei tilbúinn, þess vegna heitir hann Hvassahraun og þetta er ekki hægt,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson,  samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í Víglínunni í dag.

Hann varpaði þar fram spurningu um hvernig hægt væri að taka umræðu um stöðu flugvallarins, ef menn „[æptu] bara í allar áttir,“ og enginn segði neitt.

„Svo hafa menn skrifað undir samninga hægri og vinstri, sem gera það að verkum að það er alltaf verið að þrengja að vellinum. Nú þurfum við bara að kanna það, hvað er satt og hvað er rétt,“ sagði Sigurður Ingi.

Viðtalið við Sigurð Inga úr Víglínunni má sjá í heild sinni hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×