Innlent

Mun lakari frammistaða í lesskilningi en á öðrum Norðurlöndum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
PISA-könnunin var lögð fyrir í 79 ríkjum árið 2018 og hérlendis tóku 87% allra 15 ára nemenda þátt.
PISA-könnunin var lögð fyrir í 79 ríkjum árið 2018 og hérlendis tóku 87% allra 15 ára nemenda þátt. Vísir/hanna

Frammistaða í lesskilningi á Íslandi mun lakari en á öðrum Norðurlöndum og áfram nokkuð undir meðaltalinu í löndum OECD. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum nýrrar PISA-könnunar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Könnunin var lögð fyrir 15 ára nemendur á Íslandi vorið 2018. PISA er alþjóðlegt könnunarpróf, sem framkvæmt er á þriggja ára fresti í 79 löndum. Kannaður er lesskilningur og læsi á stærðfræði og náttúruvísindi en ein greinanna er áherslugrein í hvert sinn. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á lesskilning.

Í niðurstöðunum kemur fram að frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi í heild hafi ekki breyst marktækt frá síðustu könnun PISA árið 2015. Þó hefur nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings fjölgað hlutfallslega. Þeir telja nú 26% þátttakenda í heild, 34% drengja en 19% stúlkna.

Frammistöðu hefur hrakað marktækt í samanburði við árið 2009 þegar lesskilningur var síðast aðalsvið. Samantekið er  frammistaða í lesskilningi á Íslandi mun lakari en á öðrum Norðurlöndum og áfram nokkuð undir meðaltalinu í löndum OECD.

Þá stóðu íslenskir nemendur sig í heild marktækt betur í læsi á stærðfræði en í síðustu könnun PISA og eru rétt yfir meðaltalinu í löndum OECD. Þá náðu hlutfallslega fleiri stúlkur grunnhæfniviðmiðum PISA í læsi á stærðfræði en í síðustu könnun.

Frammistaða íslenskra nemenda í læsi á náttúruvísindi er óbreytt frá því í síðustu könnun. Íslenskir nemendur standa áfram verr að vígi á þessu sviði en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum og að meðaltali í löndum OECD.

PISA-könnunin var lögð fyrir í 79 ríkjum árið 2018 og hérlendis tóku 87% allra 15 ára nemenda þátt. Niðurstöðurnar eru kynntar samtímis í öllum þátttökuríkjunum nú að morgni 3. desember. Hér má nálgast skýrslu Menntamálastofnunar úr gögnum PISA-könnunarinnar.

Niðurstöðurnar verða kynntar á blaðamannafundi í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem hefst kl. 10:15 í dag. Skýrslan verður einnig kynnt á opnum fundi Menntamálastofnunar og menntavísindasviðs Háskóla Íslands kl. 14:30 í dag, í húsakynnum Háskólans við Stakkahlíð.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.