Innlent

Mun lakari frammi­staða í les­skilningi en á öðrum Norður­löndum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
PISA-könnunin var lögð fyrir í 79 ríkjum árið 2018 og hérlendis tóku 87% allra 15 ára nemenda þátt.
PISA-könnunin var lögð fyrir í 79 ríkjum árið 2018 og hérlendis tóku 87% allra 15 ára nemenda þátt. Vísir/hanna

Frammistaða í lesskilningi á Íslandi mun lakari en á öðrum Norðurlöndum og áfram nokkuð undir meðaltalinu í löndum OECD. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum nýrrar PISA-könnunar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).



Könnunin var lögð fyrir 15 ára nemendur á Íslandi vorið 2018. PISA er alþjóðlegt könnunarpróf, sem framkvæmt er á þriggja ára fresti í 79 löndum. Kannaður er lesskilningur og læsi á stærðfræði og náttúruvísindi en ein greinanna er áherslugrein í hvert sinn. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á lesskilning.



Í niðurstöðunum kemur fram að frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi í heild hafi ekki breyst marktækt frá síðustu könnun PISA árið 2015. Þó hefur nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings fjölgað hlutfallslega. Þeir telja nú 26% þátttakenda í heild, 34% drengja en 19% stúlkna.



Frammistöðu hefur hrakað marktækt í samanburði við árið 2009 þegar lesskilningur var síðast aðalsvið. Samantekið er  frammistaða í lesskilningi á Íslandi mun lakari en á öðrum Norðurlöndum og áfram nokkuð undir meðaltalinu í löndum OECD.



Þá stóðu íslenskir nemendur sig í heild marktækt betur í læsi á stærðfræði en í síðustu könnun PISA og eru rétt yfir meðaltalinu í löndum OECD. Þá náðu hlutfallslega fleiri stúlkur grunnhæfniviðmiðum PISA í læsi á stærðfræði en í síðustu könnun.



Frammistaða íslenskra nemenda í læsi á náttúruvísindi er óbreytt frá því í síðustu könnun. Íslenskir nemendur standa áfram verr að vígi á þessu sviði en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum og að meðaltali í löndum OECD.

PISA-könnunin var lögð fyrir í 79 ríkjum árið 2018 og hérlendis tóku 87% allra 15 ára nemenda þátt. Niðurstöðurnar eru kynntar samtímis í öllum þátttökuríkjunum nú að morgni 3. desember. Hér má nálgast skýrslu Menntamálastofnunar úr gögnum PISA-könnunarinnar.



Niðurstöðurnar verða kynntar á blaðamannafundi í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem hefst kl. 10:15 í dag. Skýrslan verður einnig kynnt á opnum fundi Menntamálastofnunar og menntavísindasviðs Háskóla Íslands kl. 14:30 í dag, í húsakynnum Háskólans við Stakkahlíð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×