Innlent

Gripin glóðvolg af ljósmyndara við að háma í sig önd

Jakob Bjarnar skrifar
Alla jafna er Kolbrún ekki frek á fóðrunum þegar veitingar í ráðhúsinu eru annars vegar. En, hún var svöng í gærkvöldi.
Alla jafna er Kolbrún ekki frek á fóðrunum þegar veitingar í ráðhúsinu eru annars vegar. En, hún var svöng í gærkvöldi.
Ljósmynd Sigtryggs Ara Jóhannssonar, sem birtist í Fréttablaðinu í morgun, sem tekin er inn um kýrauga á mötuneyti Ráðhússins hefur vakið verðskuldaða athygli. Eru nokkrir á samfélagsmiðlum þegar farnir að tala um fréttamynd ársins. Þar má sjá fulltrúa Flokks fólksins háma í sig önd, sem var á matseðli borgarfulltrúa og annarra þeirra sem í ráðhúsinu starfa, í gærkvöldi. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni og samherji Kolbrúnar í minnihlutanum, fylgist forviða með.

„Já, ég var gripin illilega,“ segir Kolbrún í samtali við Vísi. En, mikill kostnaður vegna veitinga sem bornar eru í ráðhúsfólkið var til umræðu í gær. Það var því óheppilegt að matseðillinn skyldi vera einkar glæsilegur í gær en það er Múlakaffi sem sér um kostinn. Er vaninn sá að veitingarnar séu venju fremur veglegar þegar fjárhagsáætlun borgarinnar er til umræðu en svo háttaði til í gær.

Meðal þeirra sem fordæmdu hinn mikla kostnað sem er vegna veitinganna var Kolbrún sjálf og hafði hún jafnframt á orði við Vísi að sjálf væri hún ekki frek á fóðrum, borðaði yfirleitt lítið á þessum kvöldfundum. En, á myndinni hins vegar gerir hún sér öndina að góðu.

„Ég hafði ekki borðað í tíu tíma og kom seint í mat. En, ég er náttúrlega ein til frásagnar um það,“ segir Kolbrún létt í bragði. „Ég er heppin með það að vera gangandi sönnun þess að borða ekki mikið. Það er sífellt verið að segja að ég sé of grönn.“

Kolbrún segir að betur hefði farið á því ef náðst hefði mynd af þeim í meirihlutanum, þeim sem ráða ríkjum og eru með fjárráðin og ábyrgðina þar með. „Myndin sýnir bara valdalaust, hungrað borgarfulltrúagrey. En meirihlutafulltrúarnir kætast mikið núna, það hlakkar í þeim.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×