Innlent

Gripin glóðvolg af ljósmyndara við að háma í sig önd

Jakob Bjarnar skrifar
Alla jafna er Kolbrún ekki frek á fóðrunum þegar veitingar í ráðhúsinu eru annars vegar. En, hún var svöng í gærkvöldi.
Alla jafna er Kolbrún ekki frek á fóðrunum þegar veitingar í ráðhúsinu eru annars vegar. En, hún var svöng í gærkvöldi.

Ljósmynd Sigtryggs Ara Jóhannssonar, sem birtist í Fréttablaðinu í morgun, sem tekin er inn um kýrauga á mötuneyti Ráðhússins hefur vakið verðskuldaða athygli. Eru nokkrir á samfélagsmiðlum þegar farnir að tala um fréttamynd ársins. Þar má sjá fulltrúa Flokks fólksins háma í sig önd, sem var á matseðli borgarfulltrúa og annarra þeirra sem í ráðhúsinu starfa, í gærkvöldi. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni og samherji Kolbrúnar í minnihlutanum, fylgist forviða með.

„Já, ég var gripin illilega,“ segir Kolbrún í samtali við Vísi. En, mikill kostnaður vegna veitinga sem bornar eru í ráðhúsfólkið var til umræðu í gær. Það var því óheppilegt að matseðillinn skyldi vera einkar glæsilegur í gær en það er Múlakaffi sem sér um kostinn. Er vaninn sá að veitingarnar séu venju fremur veglegar þegar fjárhagsáætlun borgarinnar er til umræðu en svo háttaði til í gær.

Meðal þeirra sem fordæmdu hinn mikla kostnað sem er vegna veitinganna var Kolbrún sjálf og hafði hún jafnframt á orði við Vísi að sjálf væri hún ekki frek á fóðrum, borðaði yfirleitt lítið á þessum kvöldfundum. En, á myndinni hins vegar gerir hún sér öndina að góðu.

„Ég hafði ekki borðað í tíu tíma og kom seint í mat. En, ég er náttúrlega ein til frásagnar um það,“ segir Kolbrún létt í bragði. „Ég er heppin með það að vera gangandi sönnun þess að borða ekki mikið. Það er sífellt verið að segja að ég sé of grönn.“

Kolbrún segir að betur hefði farið á því ef náðst hefði mynd af þeim í meirihlutanum, þeim sem ráða ríkjum og eru með fjárráðin og ábyrgðina þar með. „Myndin sýnir bara valdalaust, hungrað borgarfulltrúagrey. En meirihlutafulltrúarnir kætast mikið núna, það hlakkar í þeim.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.