Innlent

Hægt verður að segja upp veiði­heimildum eða gera þær tíma­bundnar verði nýtt auð­linda­á­kvæði að lögum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ákvæðið eigi að tryggi almenningi yfirráðarétt yfir auðlindunum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ákvæðið eigi að tryggi almenningi yfirráðarétt yfir auðlindunum. vísir/vilhelm

Forsætisráðherra segir að verði nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskránni samþykkt verði annað hvort hægt að segja upp veiðiheimildum í sjávarútvegi eða þær verði tímabundnar. Formaður Viðreisnar telur á ákvæðið þurfi að taka skýrar á þessum þáttum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar voru spurðar út í Samherjamálið á Sprengisandi í morgun og ræddu í því samhengi báðar um mikilvægi nýs auðlindaákvæðis í stjórnarskránni.

Í samráðsgátt stjórnvalda er frumvarp um málið kynnt og lagt til að við stjórnskipularlög bætist að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni þá séu náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarétti þjóðareign. Enginn geti fengið þessi gæði til varanlegrar eignar eða afnota.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þetta tryggi almenningi yfirráðarétt yfir auðlindunum.

„Þá erum við að festa í sessi þjóðareign á auðlindum sem vegur þá á móti eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Og skilgreinir það með skýrum hætti að þessir tilteknu þættir – það sem við getum kallað auðlindir í þjóðareign þar sem fiskurinn í sjónum er tvímælalaust á meðal – þær verði ekki afhentar með varanlegum hætti. Það er bara svo,“ segir Katrín.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Vísir/Vilhelm

Þorgerður Katrín segir nauðsynlegt að útskýra málið enn frekar.

„Við sjáum það og heyrðum það á fundinum á föstudaginn meðal formanna að það eru einstaklingar sem álíta sem svo að það sé hægt að afhenda auðlindir til ótímabundins tíma gegn uppsagnarákvæði. Við þurfum að skýra þetta betur.“

Katrín segir ákvæðið skýrt. „Verði þetta stjórnarskrárákvæði að veruleika – og við vorum nú bara að funda um þetta á föstudaginn – þá er það alveg á hreinu að túlkun þess hlýtur að vera sú að annað hvort eru þessar heimildir uppsegjanlegar eða tímabundnar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.