Innlent

Alvarlegt umferðarslys í Hornafirði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tilkynnt var um slysið klukkan 17:30.
Tilkynnt var um slysið klukkan 17:30. Vísir/vilhelm
Alvarlegt umferðarslys varð á þjóðvegi 1 skammt frá bænum Viðborðsseli í sveitarfélaginu Hornafirði á sjötta tímanum í dag. Þar varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið. Lögregla og sjúkraflutningamenn eru við vinnu á vettvangi, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu á Suðurlandi.

Slysið var tilkynnt til neyðarlínu um klukkan 17:30 og var vegurinn lokaður allri umferð um tíma. Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir í samtali við Vísi nú á sjöunda tímanum að byrjað sé að hleypa umferð um slysstað með stýringu.

Búist er við þónokkrum umferðartöfum á vettvangi langt fram eftir kvöldi og fyrirséð að rannsókn taki töluverðan tíma.

Bærinn Viðborðssel er merktur með bláu á mynd.Skjáskot/map.is
Rannsóknarnefnd samgönguslysa er á leið á vettvang ásamt tæknideidarmönnum lögreglu á höfuðborgarsvæðinu. Oddur segir ekki hægt að veita frekari upplýsingar um slysið eða tildrög þess að svo stöddu.

Fréttin var uppfærð klukkan 18:55.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×