Innlent

Bíl ekið inn í fiskbúð í þriðja sinn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Mildi þykir að ekki fór verr þegar bíl var ekið inn í fiskbúð í Reykjavík í dag. Þetta er í þriðja sinn sem bíl er ekið inn í búðina.

Viðskiptavinum og starfsfólki fiskbúðarinnar Hafberg var verulega brugðið þegar bíl var ekið í gengum glugga búðarinnar á öðrum tímanum í dag. Líkt og sjá má á myndbandi úr öryggismyndavél búðarinnar, sem horfa má á efst í fréttinni, brotnuðu meðal annars rúður. 

„Það eru mikil læti sem fylgja þessu þegar það fer svona rúða og veggur úr húsinu,“ segir Geir Már Vilhjálmsson eigandi Fiskbúðarinnar Hafberg. Hann segir engum hafa orðið meint af. Setið hafi þó verið á borðum rétt hjá glugganum sem ekið var inn um. „Þetta hefði getað farið verr,“ segir Geir.

Fólk sat skammt frá þar sem bílnum var ekið inn í búðina.Vísir/Sigurjón
Þetta er í þriðja sinn sem ekið er inn í búðina hans Geirs.

„Ég hef lent í þessu tvívegis áður og það er skemmtilegt að segja það að í fyrra skiptið þá kom eldri maður og keyrði í gegn. Það var reyndar bara hinn glugginn þá. Hann keyrði alveg að kæliborðinu, opnaði hurðina, labbar að afgreiðsluborðinu og segir svo ég ætla að fá þrjár kinnar og hálft kíló af gellum. Hann var ekkert að átta sig á að hann hafi keyrt inn í verslunina. Hann hélt að hann væri bara í stæðinu,“ segir Geir.

Aðspurður hvort hann sé ótrúlega óheppinn segir Geir að hann voni að þetta hafi verið í síðasta sinn sem bíl sé ekið inn í búðina. „Allt er þegar þrennt er. Þetta er bara búið,“ segir Geir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×