Innlent

Bægir lægðunum frá landinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sólsetrin eru oft falleg þegar viðrar eins og um þessar mundir.
Sólsetrin eru oft falleg þegar viðrar eins og um þessar mundir. Vísir/vilhelm
Rólegheitaveður er í kortunum næstu daga; kalt og heiðskírt. Það skýrist af hæð sem nú er yfir Grænlandi og „bægir lægðum frá landinu“. Sú staða gæti jafnframt haft yfirhöndina bróðurpart vikunnar, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Þá er sérstaklega bent á að á þessum árstíma, þegar léttskýjað er og hægur vindur, er hitatap að næturlagi talsvert mikið. Þannig getur gert allmikið frost. „Einnig eru þetta aðstæður þar sem vart verður við svifryk,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Þar segir einnig að það komi að því að áðurnefnd hæð yfir Grænlandi gefi eftir og „lægðirnar finni leiðina til okkar aftur, einhverjum til ama á meðan aðrir gleðjast.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Norðaustan 5-10 við suðausturströndina, annars hægari. Víða léttskýjað, en skýjað A-lands. Frost 0 til 8 stig, kaldast í innsveitum.

Á miðvikudag:

Hæg norðaustlæg eða breytileg átt og léttskýjað. Frost 0 til 10 stig, mildast á annesjum.

Á fimmtudag og föstudag:

Vestan gola, bjart veður og kalt, en þykknar upp V-til á landinu. Hiti breytist lítið.

Á laugardag og sunnudag:

Útlit fyrir fremur kalda norðlæga átt með björtu veðri víða um land, síst NA-til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×