Innlent

NATO ekki heiladautt en þarf að aðlagast breyttum aðstæðum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sir Stuart Peach, formaður hermálanefndar NATO.
Sir Stuart Peach, formaður hermálanefndar NATO. Vísir/Baldur
Atlantshafsbandalagið er ekki heiladautt en þarf að aðlagast breyttum aðstæðum. Þetta segir formaður hermálanefndar bandalagsins.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti vakti mikla athygli fyrir helgi þegar hann sagði í viðtali við The Economist að Atlantshafsbandalagið, NATO, væri við það að verða heiladautt. Forsetinn sagði Evópuríki ekki lengur getað treyst á að Bandaríkin verndi sig. Evrópa þurfi þess í stað að skapa sér stöðu sem samheldið heimsafl. Ummælin féllu í grýttan jarðveg og sögðust margir vera ósammála, til að mynda Angela Merkel Þýskalandskanslari.

Hinn breski Stuart Peach, formaður hermálanefndar NATO, var ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs í Norræna húsinu í dag. Hann sagði að nú, sjötíu árum frá stofnun NATO, ynni bandalagið stöðugt að því að aðlagast nýjum ógnum og breyttu umhverfi. Þörf væri á samstöðu þvert yfir Atlantshafið.

„NATO heldur áfram að aðlagasig að heiminum, það er mitt svar [við ummælum Macrons]. Hluti af þessu aðlögunarferli er að þakka bandamönnum okkar í Bandaríkjunum og Kanada fyrir sitt fjölbreytta framlag,“ segir Peach.

Peach segir þátttöku Íslands í NATO mikilvæga svo hægt sé að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi. „Smá einstaklingsframlög Íslendinga til Atlantshafsbandalagsverkefna eru afar mikilvæg. Við munum halda áfram að vinna með íslenskum yfirvöldum að því að aðlaga okkur nýjum ógnum og áskorunum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×