Innlent

Þátt­töku­met gæti fallið í hverfa­kosningum í ár

Sylvía Hall skrifar
Kosningaþátttaka hefur aukist statt og stöðugt undanfarin ár.
Kosningaþátttaka hefur aukist statt og stöðugt undanfarin ár. Hverfið mitt
Kosningum í verkefninu Hverfið mitt lýkur í kvöld þar sem íbúar velja verkefni fyrir sín hverfi sem koma til framkvæmda á næsta ári. Kosningaþátttaka hefur aukist undanfarin ár og gæti met síðasta árs fallið í ár.

Heildarkosningaþátttaka síðasta árs var 12,3% samanborið við 10,9% árið áður. Guðbjörg Lára Másdóttir, verkefnisstjóri fyrir Hverfið mitt, hvetur alla til að kjósa og jafnframt stjörnumerkja sína uppáhalds hugmynd svo hún fái tvöfalt vægi við talningu.

Guðbjörg Lára Másdóttir, verkefnisstjóri.Aðsend
Kosningarnar virka þannig að hver kjósandi fær ákveðna upphæð til þess að eyða í framkvæmdir innan hverfisins. Hugmyndirnar birtast að neðan með áætluðu verði, en Guðbjörg segir ekki nauðsynlegt að kjósa fyrir alla fjárhæðina sem kjósendum býðst.

„Kjóstu einungis það sem þú raunverulega vilt sjá verða að veruleika í þínu hverfi.“

Þegar þetta er skrifað hafa 13.030 íbúar kosið, flestir í Grafarvogi þar sem 2.044 hafa kosið og kemur Breiðholtið næst þar sem 1.955 hafa valið hvaða framkvæmdir þeir vilja sjá innan hverfisins.

Til þess að slá fyrra met þurfa 13.300 íbúar að kjósa, en 108.134 Reykvíkingar eru á kjörskrá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×