Lífið

Breyttu 48 fm bílskúr í Reykjavík í þriggja herbergja íbúð

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Fjölskylduna vantaði fleiri herbergi og fannst bílskúrinn ekki nýtast nógu vel. Þau ákváðu því að gera skúrinn íbúðarhæfan.
Fjölskylduna vantaði fleiri herbergi og fannst bílskúrinn ekki nýtast nógu vel. Þau ákváðu því að gera skúrinn íbúðarhæfan. Myndir úr einkasafni

„Okkur fannst bílskúrinn ekki þjóna neinum tilgangi sem bílskúr,“ segir Elín Rósa Guðlaugsdóttir sem breytti bílskúr heimilisins í þriggja herbergja íbúð. Breytingin var mjög mikil og eins og sjá má á myndunum sést varla að um sama rými er að ræða. 

Mynd/Úr einkasafni

„Hann nýttist bara sem geymsla fyrir stórfjölskylduna og er of dýrt húsnæði fyrir það. Svo hentaði það okkar hagsmunum betur að nýta þetta sem íbúðarhúsnæði fyrir fjölskyldumeðlimi,“ segir Elín í samtali við Vísi. Bílskúrinn sjálfur er 48 fermetrar en svo er einnig á honum geymsluloft sem er ennþá notað sem slíkt. Fjölskylduna vantaði fleiri herbergi og var þetta lausn sem hentaði þeim vel. 

„Við gætum ekki verið ánægðari, stóðst allar væntingar og meira til.“

Elín segir að þegar þau skipulögðu rýmið hafi gluggastaðsetning skipt miklu máli. Inngangurinn er enn á sama stað og svo bættu þau við einum glugga á bílskúrshurðina til þess að fá birtu fyrir eitt herbergið.  

Mynd/Úr einkasafni

Fyrsta skrefið þeirra var að skipta út ofnum. Þau bættu engum ofnum við þar sem ofnarnir voru á réttum stöðum.

„Svo brutum við upp gólfið til að koma upp niðurfalli. Eftir það var hægt að huga að öðrum hlutum í framkvæmdunum.“

Mynd/Úr einkasafni

Allt sem sneri að raflögnum og pípulögnum fengu þau meistara í en annað gerðu þau sjálf með aðstoð laghentra einstaklinga. Elín segir að það hafi lítið komið á óvart í ferlinu þar sem þau höfðu skipulagt allt vel áður en farið var af stað í þessar framkvæmdir.

„En helst þá að þetta var ódýrara þegar upp var staðið en við bjuggumst við. En það spilar að vísu inn í að við gerðum margt sjálf.“

Elín telur að þessi breyting og allt sem þau keyptu hafi í heildina kostað 3,5 milljónir. „Við vorum mjög dugleg að nýta okkur öll tilboð sem við duttum inn á, gerðum mikið sjálf og þekkjum til rafvirkja og pípara sem hjálpuðu.“

Það erfiðasta við ferlið var svo að bíða eftir því að þetta væri tilbúið svo hægt væri að byrja að gista í rýminu. 

„Þetta var allt gert eftir vinnu og um helgar svo þetta tók lengri tíma en ef fólk hefði verið í fullu starfi við þetta.“

Mynd/Úr einkasafni

Elín segir að það trufli þau ekki hversu fáir gluggar eru á rýminu.

„Það er mjög fín gluggasetning svo við finnum ekki fyrir því, þeir eru að vísu hátt uppi en það er hátt til lofts svo það kemur ekki að sök.“

Mynd/Úr einkasafni

„Fólk getur gert meira en það heldur sjálft,“ segir Elín að lokum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.