Innlent

„Víðáttumikil og nokkuð glæsileg lægð“ færir okkur gula viðvörun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svona lítur vindaspáin út um hádegi í dag.
Svona lítur vindaspáin út um hádegi í dag. Skjáskot/veðurstofan
Gul stormviðvörun tekur gildi í dag á Suðurlandi og stendur þangað til á morgun. Í dag má búast við töluverðu hvassviðri á sunnan- og vestanverðu landinu.Hvassviðrið má rekja til „víðáttumikillar og nokkuð glæsilegrar“ lægðar langt suður í hafi sem fer hægt til austurs, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Skilin frá þessari lægð nálgast nú suðurströndina og þegar hefur tekið að hvessa vegna þeirra.Í dag verður viðvarandi austan hvassviðri á sunnan- og vestanlands en stormur allra syðst, einkum undir Eyjafjöllum. Þá slær væntanlega einnig í storm á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli í austanáttinni. Vindhviður geta staðbundið verið í kring um 35 m/s og jafnvel hvassari um tíma í kvöld,Veður á morgun verður svipað og dregur ekki mikið úr vindi fyrr en annað kvöld. Mun hægari vindur er á norðan- og austanverðu landinu. Þar verður áfram kalt í dag en dregur úr frosti á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Austan og suðaustan 8-15 m/s, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt, en hvassviðri eða stormur syðst á landinu og dálítil væta. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig, en sums staðar vægt frost í innsveitum.Á miðvikudag:

Austlæg átt 5-13 m/s og skýjað að mestu. Rigning um landið suðaustanvert en dálítil slydda eða snjókoma á Austurlandi. Hiti breytist lítið.Á fimmtudag:

Austlæg átt og dálítil rigning með köflum sunnan- og austantil á landinu og hiti 1 til 6 stig. Annars skýjað með köflum og hiti um frostmark.Á föstudag og laugardag:

Útlit fyrir suðaustlæga átt með rigningu suðaustantil á landinu, en annars úrkomulítið. Hlýnar lítið eitt.Á sunnudag:

Líkur á vaxandi austanáttt og vætusömu og mildu veðri, einkum austantil.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.