Innlent

„Víðáttumikil og nokkuð glæsileg lægð“ færir okkur gula viðvörun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svona lítur vindaspáin út um hádegi í dag.
Svona lítur vindaspáin út um hádegi í dag. Skjáskot/veðurstofan

Gul stormviðvörun tekur gildi í dag á Suðurlandi og stendur þangað til á morgun. Í dag má búast við töluverðu hvassviðri á sunnan- og vestanverðu landinu.

Hvassviðrið má rekja til „víðáttumikillar og nokkuð glæsilegrar“ lægðar langt suður í hafi sem fer hægt til austurs, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Skilin frá þessari lægð nálgast nú suðurströndina og þegar hefur tekið að hvessa vegna þeirra.

Í dag verður viðvarandi austan hvassviðri á sunnan- og vestanlands en stormur allra syðst, einkum undir Eyjafjöllum. Þá slær væntanlega einnig í storm á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli í austanáttinni. Vindhviður geta staðbundið verið í kring um 35 m/s og jafnvel hvassari um tíma í kvöld,

Veður á morgun verður svipað og dregur ekki mikið úr vindi fyrr en annað kvöld. Mun hægari vindur er á norðan- og austanverðu landinu. Þar verður áfram kalt í dag en dregur úr frosti á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Austan og suðaustan 8-15 m/s, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt, en hvassviðri eða stormur syðst á landinu og dálítil væta. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig, en sums staðar vægt frost í innsveitum.

Á miðvikudag:
Austlæg átt 5-13 m/s og skýjað að mestu. Rigning um landið suðaustanvert en dálítil slydda eða snjókoma á Austurlandi. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag:
Austlæg átt og dálítil rigning með köflum sunnan- og austantil á landinu og hiti 1 til 6 stig. Annars skýjað með köflum og hiti um frostmark.

Á föstudag og laugardag:
Útlit fyrir suðaustlæga átt með rigningu suðaustantil á landinu, en annars úrkomulítið. Hlýnar lítið eitt.

Á sunnudag:
Líkur á vaxandi austanáttt og vætusömu og mildu veðri, einkum austantil.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.