Innlent

Blaðamenn greiddu atkvæði með vinnustöðvunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Greidd voru atkvæði á skrifstofu Blaðamannafélagsins.
Greidd voru atkvæði á skrifstofu Blaðamannafélagsins. Vísir/Jóhann K.

Afgerandi meirihluti greiddi atkvæði með vinnustöðvunum félaga í Blaðamannafélagi Íslands í dag. Af þeim sem greiddu atkvæði samþykktu 83,2% vinnustöðvanirnar en 12,9% greiddu atkvæði gegn þeim.

Alls voru 211 á kjörskrá og greiddi 131 atkvæði. Kjörsókn var því 62%. Af þeim greiddu 109 atkvæði með vinnustöðvununum en sautján gegn. Auðir og ógildir seðlar voru fimm.

Vinnustöðvanirnar ná til blaða-, frétta- og myndatökumanna hjá Árvakri, sem gefur út Morgunblaðið og mbl.is, Ríkisútvarpinu, Sýn, sem rekur fréttastofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar, og Torgi, sem gefur út Fréttablaðið og samnefnda vefsíðu.

Að óbreyttu fara blaða- og myndatökumenn netmiðlanna í fjögurra tíma verkfall föstudaginn 8. nóvember frá klukkan 10 til 14, í átta tíma frá 10 til 18 hinn 15. nóvember og í tólf klukkustundir fimmtudaginn 22. nóvember. Hafi enn ekki náðst samningar fimmtudaginn 28. nóvember leggja blaðamenn á prentútgáfum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins niður störf í einn dag og nær sú vinnustöðvun einnig til ljósmyndara og tökumanna á þessum miðlum.

Blaðamenn hafa verið samningslausir frá því um áramót en ekkert hefur miðað í viðræðum félags þeirra við Samtök atvinnulífsins. Viðræðum hefur þó enn ekki verið slitið.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Vinnustöðvanir félaga í Blaðamannafélaginu eiga sér stað þessa daga ef ekki verður samið áður.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.