Innlent

Vill göng undir Tröllaskaga

Ari Brynjólfsson skrifar
Stefán Vagn Stefánsson.
Stefán Vagn Stefánsson. Aðsend mynd
Varaþingmaður Framsóknarflokksins hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra láti hefja vinnu við frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga.

Tröllaskagagöng yrðu á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. „Göngin koma þá út Hjaltadal og yfir í Eyjafjörðinn, þau myndu tengja saman Mið-Norðurland,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins.

„Með þessum göngum væri fólk að sleppa við að fara yfir Öxnadalsheiðina og sleppur við Vatnsskarðið eins og það er í dag. Bílar væru þá að aka um Þverárfjallsveg í staðinn og lækka þannig um hundrað metra.“

Hann segir sveitarstjórnir beggja vegna heiðarinnar, á Sauðárkróki og Akureyri, vilja skoða þennan möguleika. Göngin eru ekki á samgönguáætlun, en Stefán Vagn bindur vonir við að þau rati inn á sérstaka gangaáætlun ráðherra.

„Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta er ekki að fara að gerast á næstu einu eða tveimur árum, við viljum fyrst og fremst koma þessu af stað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×