Sport

Hnéskelin fór úr lið hjá besta leikmanni NFL í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Mahomes liggur þjáður á vellinum í nótt.
Patrick Mahomes liggur þjáður á vellinum í nótt. AP/David Zalubowski

Patrick Mahomes og lið hans Kansas City Chiefs urðu fyrir miklu áfalli í fimmtudagsleik NFL-deildarinnar í ameríska fótboltanum í nótt.

Kansas City Chiefs vann reyndar leik sinn á móti Denver Broncos 30-6, þökk sé frábærum varnarleik, en sóknarleikurinn varð aldrei sá sami eftir að besti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð, Patrick Mahomes, meiddist illa á hné í fyrsta leikhluta.

Patrick Mahomes lá í nokkrar mínútur á vellinum áður en honum var hjálpað af velli. Í ljós kom að hnéskelin hans hafði farið úr lið. Læknalið Chiefs kippti hnéskelinni aftur í lið á vellinum. Mahomes er ekki brotinn en það kemur ekki í ljós fyrr en í dag hvort að liðbönd hafi skaddast.Svo gæti farið að Patrick Mahomes sé búinn að spila sinn síðasta leik á þessu tímabili en með hann innanborðs var Kansas City Chiefs eitt sigurstranglegasta liðið í NFL-deildinni í ár.

Fari allt á besta veg gæti Patrick Mahomes verið kominn aftur eftir þrjár vikur og hann sjálfur var bjartsýnn eftir leik. „Allt lítur vel út hingað til,“ skrifaði Patrick Mahomes á Twitter-síðu sína eftir leikinn.

Patrick Mahomes hafði verið að glíma við ökklameiðsli frá því í fyrsta leik en var engu að síður búinn að gefa fimmtán snertimarkssendingar á leiktíðinni og hafði aðeins hent boltanum einu sinni frá sér.

Hinn 35 ára gamli Matt Moore kom inn á fyrir Mahomes og kláraði leikinn. Næsti leikur Kansas City Chiefs er á móti Green Bay Packers eftir níu daga.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.