Innlent

Hviður gætu náð allt að 35 metrum á sekúndu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vindaspá Veðurstofunnar fyrir annað kvöld klukkan 18.
Vindaspá Veðurstofunnar fyrir annað kvöld klukkan 18. veðurstofa íslands
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland, Faxaflóa og miðhálendið þar sem búast má við hvassviðri eða stormi á morgun og fram á laugardag. Gætu staðbundnar hviður náð allt að 35 metrum á sekúndu.

Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir um hefðbundna haustlægð að ræða þótt ekki fylgi mikil úrkoma.

Þá er von á annarri lægð eftir helgi sem mun hafa áhrif víðar um landið eins og spár líta út í augnablikinu að sögn Eiríks.

Að því er segir á vef Veðurstofunnar mun viðvörunin taka gildi klukkan níu á morgun á Suðurlandi, klukkan tólf á hádegi á miðhálendinu og klukkan fjögur eftir hádegi á Faxaflóa.

Gildir viðvörunin svo til klukkan tólf á hádegi á laugardag á Suðurlandi og miðhálendinu en til klukkan níu um morguninn á Faxaflóa.

Á Suðurlandi má búast við 18 til 25 metrum á sekúndu en hvassast verður við ströndina. Þá má búast við snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið 35 metrar á sekúndu, einkum undir Eyjafjöllum.

Svipað verður uppi á teningnum við Faxaflóa þar sem einnig má búast við svo snörpum hviðum, einkum á Kjalarnesi og við Hafnarfjall.

„Varasamar aðstæður fyrir ökutæki, einkum fyrir þau sem taka á sig mikinn vind. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Á miðhálendinu má búast við stormi eða roki, 20 til 28 metrum á sekúndu.

„Búast má við mjög snörpum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, 30-40 m/s og sandfoki. Varasamar eða hættulegar aðstæður fyrir ferðamenn. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám,“ segir í viðvörun Veðurstofunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×