Lífið

Líflátshótanir bróðurins í garð óléttrar eiginkonu leiddu til nálgunarbanns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Aaron og Nick Carter þegar allt lék í lyndi.
Aaron og Nick Carter þegar allt lék í lyndi. Vísir/getty

Nick Carter, fyrrverandi meðlimur strákasveitarinnar Backstreet Boys, hefur fengið nálgunarbann á bróður sinn, Aaron Carter, eftir að sá síðarnefndi hótaði óléttri eiginkonu Nicks lífláti.

Í yfirlýsingu sem Nick sendi frá sér í gær segir að honum hafi ekki verið annarra kosta völ en að fara fram á nálgunarbann „í ljósi hegðunar Aarons sem varð sífellt kvíðvænlegri.“ Með nálgunarbanninu er Aaroni gert að halda sig í a.m.k. þrjátíu metra fjarlægð frá Nick, fjölskyldu hans og heimili þeirra í Las Vegas.

„Eftir að hafa íhugað málið vandlega þykir okkur systur minni, Angel, leitt að tilkynna að við sjáum okkur knúin til að fá nálgunarbann á bróður okkar, Aaron,“ segir í yfirlýsingunni.

„[…] hann elur í brjósti hugmyndir og ásetning um að ráða óléttri eiginkonu minni og ófæddu barni mínu bana.“

Aaron kveðst gáttaður á ásökunum bróður síns. „Ég vil engum illt, síst af öllu fjölskyldu minni,“ sagði hann í færslu sem birtist á Twitter í gær.Aaron hefur lengi glímt við fíknivanda og andleg veikindi og hefur verið óvæginn í garð bróður síns á Twitter síðan fregnir bárust af nálgunarbanninu. Aaroni hefur til að mynda verið tíðrætt um ásakanir um kynferðisofbeldi á hendur Nick en nauðgunarkæra gegn honum var látin niður falla í fyrra.

Bræðurnir, sem eru báðir tónlistarmenn, nutu töluverðra vinsælda á tíunda áratugnum og snemma á þessari öld. Þeir komu saman fram í raunveruleikaþættinum House of Carters, þar sem fylgst var með stormasömu heimilislífi bræðranna og þriggja systra þeirra. Nick tilkynnti um það í maí síðastliðnum að hann ætti von á barni með eiginkonu sinni, Lauren Carter.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.