Innlent

Fleiri í farbann

Sveinn Arnarsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm
Á síðasta ári voru kveðnir upp 214 farbannsúrskurðir hjá héraðsdómstólum landsins. Voru úrskurðirnir 85 árið 2017, 137 árið 2016 og árið 2015 voru þeir 69. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata.

Þórhildur Sunna spurði um fjölda gæsluvarðhalds- og farbannsúrskurða síðastliðin fimm ár. Ekki reyndist unnt að sundurgreina svörin eftir flokkum brota, þjóðerni þess sem úrskurður beindist að né því lagaákvæði sem hann var reistur á.

Langflestir farbannsúrskurðir féllu á síðasta ári í Héraðsdómi Reykjaness, eða 98, og í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem þeir voru 92.

Gæsluvarðhaldsúrskurðir í fyrra voru 489 en 449 árið áður. Árið 2016 voru þeir 343, þeir voru 338 árið 2015 og 257 árið 2014.

Fram kemur að fjöldi úrskurða þýði ekki sama fjölda einstaklinga þar sem hægt sé að úrskurða þá endurtekið í farbann eða gæsluvarðhald. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×