Innlent

Lokakvöldi Iceland to Poland aflýst

Andri Eysteinsson skrifar
Hatari átti að spila í Gdansk en hætti við, deilur spruttu upp í kjölfarið.
Hatari átti að spila í Gdansk en hætti við, deilur spruttu upp í kjölfarið.
Ekki verður af Gdansk hluta tónlistarhátíðarinnar Iceland to Poland sem átti að fara fram í dag. Hátíðin, sem ætlað er að kynna íslenskt tónlistarlíf í Póllandi, hefur verið í fréttum undanfarið í tengslum við meint svik og vanefndir hljómsveitarinnar Hatara. Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Sjá einnig: Stefnir Hatara fyrir samningsbrot

Á Facebook síðu tónlistarhátíðarinnar segir að ástæðan fyrir því að aflýsa þurfi tónleiknum í hafnarborginni Gdansk sé sú að skipulagsvandamál sem ekki er unnt að leysa hafi komið upp. Aðstandendur hátíðarinnar biðja þá sem hugðust hlusta á ljúfa íslenska tóna í Gdansk afsökunar og bjóðast til þess að endurgreiða alla selda miða.

Í yfirlýsingunni þakka aðstandendur öllum þeim sem sóttu tónleikana undanfarna daga í borgunum Kraká, Poznan og Varsjá.

Um miðjan mánuðinn stefndi aðalskipuleggjandi hátíðarinnar Svikamyllu ehf. móðurfyrirtæki Hatara fyrir samningsbrot. Skipuleggjandinn Wiktoria Ginter kveðst hafa bókað Hatara fyrir áramót en sveitin hafi síðar krafist um sex sinnum hærri þóknunar en í fyrstu var um rætt.

Hatari birti í kjölfarið yfirlýsingu á Facebook þar sem tilkynnt var að sveitin kæmi ekki til með að taka þátt í hátíðinni og að ástæða þess væri að skipuleggjendur Iceland to Poland hafi ekki haft í heiðri grundvallarsamningsatriði. Hatari átti að spila á lokakvöldi hátíðarinnar í Gdansk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×