Innlent

Leitin við Þingvallavatn hefst að nýju

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Leitarfólk kemur til með að leita á landi og á vatni. Myndin er úr safni.
Leitarfólk kemur til með að leita á landi og á vatni. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm
Leitin að manneskjunni sem gengið er út frá að hafi verið í bátnum sem fannst mannlaus á floti í Þingvallavatni síðdegis í gær hefst aftur um klukkan níu í dag. Hlé var gert á leitinni laust fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi.

Engar frekari vísbendingar hafa fundist um mannaferðir en leitarmenn fundu bakpoka í flæðarmálinu í gærkvöldi. Mikill öldugangur í vatninu hefur reynst björgunarmönnum erfiður.

Steingrímur Jónsson í svæðisstjórn björgunarsveita segir í samtali við Vísi að um klukkan níu fari leitin aftur af stað. Lagt sé upp með að björgunarfólk gangi hringinn í kring um vatnið. Þá verði einnig nokkrir harðbotna bátar á vatninu sem notaðir verða við leitina.

Steingrímur segir nokkra tugi fólks hafa tekið þátt í leit gærdagsins og gerir ráð fyrir svipuðum tölum leitarfólks í dag, eða um sextíu manns.

Mikill öldugangur í Þingvallavatni hefur gert leitarmönnum á bátum erfitt fyrir, en Steingrímur segir lítið sem ekkert hafa dregið úr þeim öldugangi. Aðstæður séu með svipuðu móti og í gær, ögn hvassara.

Áætlað er að taka einn hring umhverfis vatnið á landi og vatni. Eftir það verður staðan endurmetin eftir aðstæðum og næstu skref leitarinnar ákveðin, ef þurfa þykir.


Tengdar fréttir

Fundu bakpoka í flæðarmálinu

Enn er gengið út frá því að manneskja hafi verið í bátnum sem fannst mannlaus á floti í Þingvallavatni síðdegis í dag. Leitarmenn fundu bakpoka í flæðarmálinu fyrir skömmu, sem kann að gefa vísbendingu um mannaferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×