Innlent

Í hálfu starfi þegar hún nýtti sér fjárfestingarleiðina

Ari Brynjólfsson skrifar
Sigríður Benediktsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs, og Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Sigríður Benediktsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs, og Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Fréttablaðið/Stefán
Sigríður Benediktsdóttir segir að hún hafi verið að vinna erlendis að takmörkuðum verkefnum fyrir Seðlabankann þegar hún nýtti sér fjárfestingarleið bankans.

Sigríður nýtti sér fjárfestingarleiðina þann 15. febrúar 2012, í fyrsta útboði bankans, til að flytja inn 50 þúsund evrur til landsins.

Sigríður var skipuð framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í bankanum þann 1. janúar 2012. Samkvæmt skjali frá því 9. febrúar 2012 var það sérstök ákvörðun Más Guðmundssonar seðlabankastjóra að reglurnar næðu ekki til Sigríðar þar sem hún hefði ekki setið framkvæmdastjórafundi. Reglurnar myndu ekki ná til hennar fyrr en hún hæfi störf sem framkvæmdastjóri þann 23. apríl sama ár. Fram að því væri hún í hlutastarfi við bankann.

Sigríður sagði í samtali við ViðskiptaMoggann, sem greindi fyrst frá málinu, að hún hefði ekki hafið störf þegar hún nýtti sér fjárfestingarleiðina.

„Ég á við það að það var ekki fyrr en ég kom til landsins sem ég tók við öllum verkefnum framkvæmdastjóra – fram að því var ég að vinna að utan að takmörkuðum verkefnum,“ segir Sigríður í svari til Fréttablaðsins. „Átti ekkert annað við en það enda opinberar upplýsingar að ég hóf störf 1. janúar.“

Í svari bankans segir að það sé afstaða Seðlabankans að Sigríður hafi á þeim tíma ekki verið í sömu aðstöðu og aðrir framkvæmdastjórar til að fá trúnaðarupplýsingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×