Innlent

Martröð verður regnbogagata

Birgir Olgeirsson skrifar
Regnbogagatan var opnuð á Dalvík í dag í tilefni af því að hinsegin dagar í Reykjavík verða heiðursgestir Fiskidagsins mikla. Með þessu er sýndur stuðningur við mannréttindi og margbreytileika. Regnbogagatan nær yfir tvær götur Sunnutún og Martröð sem er með fram sjónum.

Fulltrúi Hinsegin daga í Reykjavík sér um Vináttukeðjuræðuna 2019 á setningu Fiskidagsins mikla föstudaginn 9. ágúst kl 18.00. Pottþétt hinsegin tónlistardagskrá verður á sviðinu yfir Fiskidaginn mikla í umsjón Regínu Óskar en fánar munu blakta við hún og fleira.

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegi daga, segir það mikið fagnaðarefni að skipuleggjendur Fiskidagsins mikla hafi kosið að gera Hinsegin dögum og hinsegin málefnum hátt undir höfði og staðfesta þannig stuðning við mannréttindi og margbreytileika mannlífsins. 

„Við þökkum þann heiður sem okkur er sýndur og vonum að Dalvík, sem og landið allt, skarti sínum skærustu regnbogalitunum í ágústmánuði,“ segir Gunnlaugur. 

Í ár fagna Hinsegin dagar því að 20 ára óslitinni sögu hinsegin hátíðarhalda í Reykjavík. Árið 1999 stóðu Samtökin ´78 fyrir Hinsegin helgi í Reykjavík til að minnast þess að þá voru þrjátíu ár frá uppþotunum í Christopher-stræti. Á Hinsegin dögunum í ár verður minnst að fimmtíu ár eru liðin frá Stonewall-uppreisninni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×