Innlent

Siðareglur eftir deilur og ósætti

Birna Dröf Jónasdóttir skrifar
Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata. Vísir/Hanna
Þingmenn Pírata tala hver við annan en ekki hver um annan samkvæmt siðareglum þingflokksins sem settar voru á síðasta kjörtímabili.

„Þetta er upprunnið úr deilum sem komu upp innan flokksins á þar seinasta kjörtímabili,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Mikilvægt sé að þingmennirnir hafi þessi viðmið um samskipti. Sér í lagi á Alþingi þar sem fólk komi saman til að vera ósammála. „Þá getur hin almenna skynsemi auðveldlega dottið út.“

Undanfarna daga hafa Píratar rætt opinskátt um framkomu Birgittu Jónsdóttur, fyrrverandi formanns flokksins. Myndband af ræðu Helga Hrafns um samskiptavanda vakti athygli. Þá hafa bæði Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður, og Sara Elíza Þórðardóttir varaþingmaður greint frá erfiðum samskiptum við Birgittu.

„Ein reglan er sú að við tölum ekki um fólk heldur við það,“ segir Helgi. „Það kemur alveg fyrir að eitthvert okkar segi eitthvað á borð við: „Þessi er nú svolítið svona eða hinsegin.“ Þegar það kemur upp hjá okkur þá þarf ekki nema einn í hópnum að segja bara „nei við tölum við hann eða hana en ekki um hann eða hana“. Þannig eru áhrifin sem svona baktal getur haft bara kæfð í fæðingu,“ segir Helgi.

Helgi segir reglurnar settar fram sem jákvæðar staðhæfingar í stað skipana. „Við segjum til dæmis „Við berum sjálf ábyrgð á eigin tilfinningum“ en ekki „Berðu ábyrgð á eigin tilfinningum“.“ Sjá má siðareglur Pírata á frettabladid.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×