Erlent

Stuðningur við Trump eykst innan Repúblikana­flokksins

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump sækist eftir endurkjöri í forsetakosningunum árið 2020.
Donald Trump sækist eftir endurkjöri í forsetakosningunum árið 2020. Vísir/Getty

Ný skoðanakönnun á vegum fréttastofunnar Reuters og markaðsrannsóknarfyrirtækisins Ipsos sýnir að stuðningur við Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur aukist innan raða Repúblikanaflokksins á síðustu dögum. Þessi aukning kemur í kjölfar umdeildra ummæla forsetans í garð fjögurra þingkvenna Demókrataflokksins.

Í sambærilegri skoðanakönnun sem gerð var í síðustu viku mældist stuðningur við forsetann innan flokksins um það bil 67 prósent. Í könnun sem gerð var á mánudag og þriðjudag mældist hann hins vegar 72 prósent og hafði því hækkað um fimm prósentustig.

Sjá einnig: Fulltrúadeildin fordæmir ummæli Trump

Skoðanakönnunin fór því fram degi eftir að forsetinn sagði ónefndum frjálslyndum þingkonum Demókrataflokksins að fara „aftur til síns heima“ og þótti ljóst að hann átti við fjórar nýjar þingkonur demókrata sem eru allar dökkar á hörund. Þrjár þeirra fæddust hins vegar í Bandaríkjunum fyrir utan eina, Ilhan Omar, sem flutti til Bandaríkjanna frá Sómalíu sem barn.

Stuðningur við Trump fer hins vegar minnkandi á meðal demókrata og sjálfstæðra eftir ummælin. Um það bil þrír af hverjum tíu utan flokka sögðust nú styðja forsetann en vikuna áður sögðust fjórir af hverjum tíu styðja hann. Þá minnkaði stuðningur um tvö prósentustig á meðal demókrata.

Heildarstuðningur við forsetann helst óbreyttur milli vikna, 41 prósent segjast styðja forsetann á móti 55 prósentum sem eru óánægð með störf hans í embætti.


Tengdar fréttir

Fulltrúadeildin fordæmir ummæli Trump

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings greiddi atkvæði um að fordæma ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta í garð þingkvenna Demókrataflokksins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.