Innlent

Hús í Fossvogi gjörónýtt eftir eldsvoða

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins vinnur að því að slökkva í glæðum sem enn lifir í.
Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins vinnur að því að slökkva í glæðum sem enn lifir í. Vísir/MHE
Slökkvistörf eru langt komin eftir að eldur kom upp í húsi í Fossvoginum í nótt. Búið er að slökkva eld en unnið er að því að slökkva í glæðum. Að sögn Árna Oddssonar, varðstjóra, er næsta skref að rífa þak hússins til að ná í glæður undir þakskegginu.

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út í nótt eftir að eldur kom upp á fjórða tímanum. Um er að ræða gamalt yfirgefið timburhús í Fossvoginum, rétt fyrir neðan Landsspítalann. Á vef Ríkisútvarpsins segir að reyk hafi lagt yfir Landspítalann og nærliggjandi hús. Þar segir að vitað sé til þess að fólk hafi haldið þar til öðru hverju í leyfisleysi.

Tveir bílar eru eftir við slökkvistörf og um fimmtán manns frá tveimur stöðvum. Kalla þurfti út hluta af frívakt til að manna verkefnið.

Reykkafarar þurftu að athafna sig til að ganga úr skugga um að enginn væri innandyra. Árni segir að enginn hafi verið var við mannaferðir. Ekki er hægt að útiloka íkveikju en húsið er gjörónýtt eftir eldinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×