Innlent

Mjaldrarnir rólegir eftir smá stress í byrjun

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
„Þetta voru mjög sérstakir gestir sem voru hjá okkur í dag,“ segir Brynjar Örn Sveinjónsson, flugmaður Cargolux. Brynjar fékk það sérstaka verkefni að fljúga flugvél Cargolux frá Shanghai til Íslands.

Nokkur seinkun hefur orðið á komu mjaldranna. Fyrst um nokkra daga en svo var áætluð koma um klukkan níu í morgun. Úr varð að flugvélin lenti á öðrum tímanum í dag eftir vel heppnað flug.

Brynjar segir aðeins viku síðan í ljós kom að hann myndi fljúga vélinni.

„Það var mjög gaman og ánægjulegt að taka þátt í þessu verkefni. Ég er mjög glaður go stoltur að hafa fengið að taka þátt í því að fljúga þeim frá Kína til Íslands. Og að Cargolux hafi lagt sitt fram að koma þeim frá Kína og yfir.“

Undirbúningur hafi verið afar mikill og frá öllum hliðum. Ekki aðeins flughliðinni. Mikil skipulagning hafi átt sér stað. Hann hefur séð mjaldanna tvo, Litlu hvít og Litlu grá.

„Já já, við fórum í gær og sáum þá við undirbúning á flutningnum. Vorum þar í tvo til þrjá klukkutíma meðan verið var að flytja þá yfir í gámana. Svo höfum við kíkt á þá meðan verið var að flytja þá um borð í vélina,“ segir Brynjar.

„Þeim hefur liðið mjög vel. Þeir voru auðvitað kannski pínu stressaðir fyrst en voru mjög rólegir í gegnum allt flugið. Þetta gekk rosalega vel.“

Vísir hefur fylgst með gangi mála í Keflavík frá lendingu. Nánar í vaktinni að neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.