Innlent

Þórólfur mjög undrandi að hafa ekki verið metinn hæfastur

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórólfur Árnason er forstjóri Samgöngustofu.
Þórólfur Árnason er forstjóri Samgöngustofu. Vísir/Sigurjón
Þórólfur Árnason, starfandi forstjóri Samgöngustofu, er mjög undrandi að hafa ekki verið metinn hæfasti umsækjandinn um stöðu forstjóra stofnunarinnar. Tilkynnt var í dag að Jón Gunnar Jónsson hefði verið skipaður forstjóri Samgöngustofu frá og með 6. ágúst næstkomandi.

„Ég sóttist eftir stöðunni og er mjög undrandi að vera ekki metinn hæfastur. Sérstaklega í ljósi reynslu og þekkingar og að allt hafi gengið vel hjá Samgöngustofu,“ segir Þórólfur.

Hann segir Samgöngustofu ávallt hafa verið rekna innan fjárheimilda undir sinni stjórn, vinnustaðagreiningar hafi verið upp á við og forkönnun Ríkisendurskoðunar hafi verið framkvæmd athugasemdalaust í fyrrahaust.

Þórólfur segist hafa hagrætt í rekstri, sameinað deildir og stöður en það hafi verið mikið verk sem beið hans að sameina stofnanir þegar Siglingastofnun, Flugmálastjórn og Umferðarstofa voru sameinaðir í Samgöngustofu, en undir hana féll einnig stjórnsýsluverkefni frá Vegagerðinni.

Þórólfur segir þennan samruna hafa gengið mjög illa þar til hann var ráðinn forstjóri árið 2014.

Hann ætlar sér að biðja um rökstuðning frá Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu fyrir ráðningu Jóns Gunnars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×