Lífið

Hótað lífláti fyrir að halla sér yfir Beyoncé til að tala við Jay-Z

Birgir Olgeirsson skrifar
Hér sést Nicole Curran halla sér yfir Beyoncé til að spyrja Jay-Z hvað hann vildi drekka.
Hér sést Nicole Curran halla sér yfir Beyoncé til að spyrja Jay-Z hvað hann vildi drekka. Vísir/Getty
Það lék allt á reiðiskjálfi í síðustu viku þegar myndband fór í dreifingu þar sem kona sást halla sér yfir tónlistarkonuna Beynocé til að segja nokkur orð við eiginmann Beyoncé, Jay-Z.

Atvikið átti sér stað á leik Golden State Warriors og Toronto Raptors í úrslitum bandarísku körfuknattleiksdeildarinnar NBA.

Þegar konan hallaði sér yfir Beyoncé virtist svipur, að mati margra netverja, gefa til kynna að hún væri ekki hrifin af þessu athæfi konunnar. Konan hefur í dag stigið fram og greint frá því að henni hafi borist fjölda líflátshótana. Varð það til þess að hún sá sig knúna til að loka Instagram-reikningi sínum.

Konan heitir Nicole Curran en hún er eiginkona Joe Lacob, sem er meirihluta eigandi í Warriors-liðinu. Curran ræddi við ESPN um atvikið en hún segist hafa hallað sér yfir Beyoncé til að heyra greinilega hvað Jay-Z vildi fá að drekka svo hún gæti fært hjónunum drykki.

„Það var enginn fjandskapur okkar á milli. Ég reyndi bara að vera góður gestgjafi,“ sagði Curran við ESPN.

Hún sagði frá sinni hlið á Instagram-reikningi sínu en þar kemur fram að þegar hún var komin heim eftir leikinn beið hennar ógrynni af skilaboðum frá reiðum aðdáendum Beyoncé. Henni var hótað svo lífláti að hún sá sig tilneydda til að loka Instagram-reikningnum.

„Ég hef aldrei upplifað jafn mikið neteinelti,“ sagði Curran við ESPN og var algjörlega niðurbrotin í viðtalinu.

Talsmaður Beyoncé bað aðdáendur hennar um að dreifa ekki hatri á netinu í hennar nafni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×