Innlent

Skólastarfið í Úlfarsárdal í uppnámi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá framkvæmdasvæðinu í dag.
Frá framkvæmdasvæðinu í dag. Vísir
Hildur Jóhannesdóttir, skólastjóri Dalskóla í Úlfarsárdal í Reykjavík, segir það mikil vonbrigði að vita að afhending hluta skólahúsnæðis verði ekki tilbúið á þeim tíma sem til stóð. Það setji skólahald í uppnám. Um er að ræða nýtt húsnæði skólans sem áætlað var að taka að fullu í notkun við setningu skólans í ágúst.

Hildur segir í skilaboðum til foreldra í skólanum að afhending hluti skólahúsnæðis sem er í byggingu verði ekki tilbúið 15. ágúst. Raunar verði hann ekki að fullu tilbúinn fyrr en haustið 2020. Skólaráðsfundur var haldinn í morgun þar sem þetta var kynnt.

„Það sem er til afhendingar 15. ágúst eru kennslustofur umsjónarhópa, kennslueldhús og fataklefar eldri nemenda í austurhluta skólans á efri hæðinni, en þar verður líka hægt að komast inn í skólann,“ segir Hildur.

„Það sem ekki er til afhendingar fyrr en 15. október (líklega einhver rými fyrr) eru list- og verkgreinakennslustofur (textíl, smíðar, myndmennt), náttúrufræðikennslustofa, fatahengi í grunnskólahluta neðri hæðar, starfsmannarými, sérkennslurými, skrifstofurými og gangurinn eða miðrýmið ásamt stiga milli hæða, lyfta og ræstikompa.“

Framkvæmdasvæðið í Úlfarsárdal.Vísir
Um áramótin verði svo mötuneytið afhent.

„Tónmenntastofa, salur, tónlistarskólaherbergi, bókasafn og félagsmiðstöð unglinga koma þar næsta haust.

Það að geta ekki gengið að þeim skólarýmum sem ráð var fyrir gert setur skólastarfið í uppnám, fyrir foreldra og starfsfólk en ekki síst fyrir nemendur.“

Viðkvæmur skólabragur vegna húsnæðisróts

Skólabragurinn sé að mörgu leyti góður að sögn Hildar en um leið viðkvæmur.

„Að okkar mati helgast það mikið af því húsnæðisróti sem okkur hefur verið boðið upp á í gegnum tíðina. Við höfum komið skilaboðum til yfirmanna skólamála í Reykjavíkurborg og borgarstjóra hve vonbrigði okkar eru mikil.“

Dalskóli er grunnskóli fyrir nemendur í 1. til 10. bekk. Hann tók til starfa haustið 2010. Tæplega 300 hundruð nemendur eru við skólann.

Nánar má kynna sér framkvæmdina á heimasíðu borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×