Innlent

Tók til fótanna þegar hún heyrði hvellinn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Auður Elín sem er búsett í Malmö brá þegar hún varð vitni að því þegar eldur kom upp í strætisvagni í hverfinu hennar.
Auður Elín sem er búsett í Malmö brá þegar hún varð vitni að því þegar eldur kom upp í strætisvagni í hverfinu hennar. Aðsend
Eldur kom upp í aftari hluta gasknúins strætisvagns í Västra-hamnen hverfinu í Malmö í Svíþjóð um klukkan hálf tvö að staðartíma í dag.

Auður Elín Sigurðardóttir, vörumerkja-og verslunarstjóri, var með dóttur sína í barnavagni á leiðinni að sækja son sinn á leikskólann þegar hún varð vitni að því þegar eldur kom upp í kyrrstæðum strætisvagni á óvanalegum stað.

„Þá sé ég að strætó stoppar á skringilegum stað og aftast í strætisvagninum sé ég loga. Allt í einu kemur rosalega mikill reykur og ég sé að ökumaðurinn drífur sig út. Eldurinn breiðist síðan rosalega hratt út og verður mikill eldur.“

Sem betur fór var vagnstjórinn einn um borð í strætisvagninum þegar eldurinn kviknaði og því sakaði engan. Auður Elín var á meðal fyrstu á vettvang en skömmu síðar mættu slökkviliðsmenn.

Auður Elín kom barnavagninum í skjól og hóf strax að mynda eldsvoðann en leist síðan ekki á blikuna þegar skyndilega heyrðist hávær hvellur.

„Mér brá í raun og veru. Ég hélt fyrst að þetta yrði bara pínulítill eldur og bjóst ekki við einhverju miklu en síðan gerðist þetta allt í einu mjög hratt. Mér brá rosalega mikið þegar sprengingin kom þegar ég var að taka myndbandið. Þá bara tók ég vagninn og hljóp í burtu.“

Aðspurð segir Auður Elín að eldsupptök séu ókunn en bætir við að svipað atvik hafi átt sér stað í Stokkhólmi fyrir skömmu. Verið sé að vinna í því að rannsaka vettvang.

Auður Elín segir að strætisvagninn hafi orðið alelda og gjöreyðilagst í eldsvoðanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×