Innlent

Svuntur sem for­­seta­hjónin fengu að gjöf í Reykja­nes­bæ vekja at­hygli

Atli Ísleifsson skrifar
Heimsókn forsetahjónanna til Reykjanesbæjar stóð yfir dagana 2. og 3. maí síðastliðinn.
Heimsókn forsetahjónanna til Reykjanesbæjar stóð yfir dagana 2. og 3. maí síðastliðinn.
Mynd af forsetahjónununum sem fylgir kveðju frá bæjarstjóra Reykjanesbæjar í síðasta tölublaði Víkurfrétta hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum. Á myndinni má sjá Guðna Th. Jóhannesson haldandi á svuntu með áletruninni „Fyrirmynd okkar allra“, en á svuntu Elizu Reid forsetafrúar stendur „Konan á bak við manninn“.

Nokkur umræða hefur skapast um myndina og þá sér í lagi áletrunina í Facebook-hópnum Karlar gera merkilega hluti, þar sem í eru um níu þúsund manns, sem og víðar.

Forsetahjónin fóru tveggja daga opinbera heimsókn til Reykjanesbæjar í byrjun mánaðar og í kveðjunni þakkar bæjarstjórinn Kjartan Már Kjartansson þeim fyrir komuna fyrir hönd bæjarstjórnar og íbúa Reykjanesbæjar.

Fengu að gjöf frá notendum Hæfingarstöðvar

Kjartan segir í samtali við Vísi að forsetahjónin hafi fengið svunturnar að gjöf frá notendum Hæfingarstöðvarinnar í bænum, sem þjónar meðal annars hlutverki verndaðs vinnustaðar.

Hann segir að myndin með kveðjunni hafi ekki verið valin vegna orðalagsins á svuntunum. „Það var vegna þess að hún var tekin í Hæfingarstöðinni og við vildum sýna þeim þá virðingu að hafa mynd úr þeirri heimsókn. Ég get alveg fallist á það, svona eftir á að hyggja, að þetta hafi verið óheppilegt og að við hefðum átt að rýna betur í þetta,“ segir Kjartan.

Bæjarstjórinn segir að heimsókn forsetahjónanna hafi annars verið frábær. „Reykjanesbær skartaði sínu fegursta í veðri og þau voru afar ánægð með allt sem þau sáu og heyrðu. Allir hér voru sömuleiðis afar ánægð með að fá þau í heimsókn,“ segir Kjartan Már.

Kveðja bæjarstjórans í Víkurfréttum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×