Innlent

Kom kaja­kræðara til bjargar: „Það komst ekkert annað að en að ná til mannsins“

Atli Ísleifsson skrifar
Bjartur Snær Sigurðsson telur að hann hafi verið um korter að róa að manninum.
Bjartur Snær Sigurðsson telur að hann hafi verið um korter að róa að manninum. Sigurður Matthíasson
„Það var ekkert annað nema lukka að við tókum eftir honum þarna í sjónum,“ segir Bjartur Snær Sigurðsson, tvítugur íbúi í Grafarvogi sem kom kajakræðara í sjónum til bjargar fyrr í kvöld.

Bjartur Snær á heima við Barðastaði (rauða merkingin niðri til vinstri). Rauða merkingin á hafi var þar sem ræðarinn var í vanda. Bjartur Snær og kajakræðarinn fóru svo á land á Geldinganesi (efsta rauða merkingin).
Bjartur segir föður sinn hafa séð kajak á hvolfi úti á sjó þar sem hann horfði út um gluggann í stofunni á heimili þeirra við Barðastaði í Grafarvogi. „Við sjáum manninn ekki alveg strax en sjáum hann svo í kíkinum. Við hringjum í lögregluna, en ég ákveð þá að fara út á kajakinum mínum, enda ljóst að ég yrði fljótari á staðinn en þeir.“

Skelfur

Bjartur Snær segist hafa verið kominn í þurrgallann og vestið á um þremur mínútum og svo byrjað að róa út. Hann telur sig hafa verið um korter að róa, enda maðurinn í talsverðri fjarlægð frá landi.

„Ég kem að honum og hann skelfur bara. Ég skildi ekki alveg hvað hann var að segja og hann rétt nær að halda sig í kajakinn minn. Ég reri svo með hann upp á Geldingarnes, um átta hundruð metra leið.“



Þurrgallinn fullur af vatni

Bjartur segir að að þurrgalli mannsins hafi verið fullur af vatni. „Ég hjálpaði honum úr honum og lét hann fá fötin mín sem ég var í undir þurrgallanum. Við bíðum svo í fimm, tíu mínútur þar til slökkviliðið var mætt á staðinn,“ segir Bjartur.

Hann kveðst ennfremur hafa fengið upplýsingar um að það sé í lagi með kajakræðarann. „Það var gríðarlega mikill léttir að heyra það.“

Sigurður Matthíasson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×