Innlent

Hatari og Måns höfðu mest áhrif á vatnslosun í Reykjavík

Andri Eysteinsson skrifar
Hatari hafði þvert í móti vatnslosandi áhrif á Reykvíkinga
Hatari hafði þvert í móti vatnslosandi áhrif á Reykvíkinga Getty/Gui Prives
Vatnsnotkun Reykvíkinga minnkaði talsvert þegar Hatari steig á svið á úrslitakvöldi Eurovision 2019 í Tel Aviv í gærkvöldi.

Samkvæmt tölum frá Veitum minnkaði vatnsnotkun stöðugt í Reykjavík frá 18:30, hálftíma áður en að útsending hófst, allt til úrslitastundarinnar skömmu fyrir 23:00 þegar vatnsnotkun jókst til muna og náði eðlilegri vatnsnotkun sé miðað við laugardaga.

Söngvakeppnin er einn þeirra viðburða hvar hægt er að sjá sameiginlegt hegðunarmynstur landsmanna með því að rýna í gögn, meðal annars frá Veitum.

Helstu dýfur í vatnsnotkun Reykvíkinga í gær voru þegar Hatari var á sviðinu, þegar hjartaknúsarinn Måns Zelmerlow steig á svið auk tónlistaratriðis söngkonunnar Madonnu. Við hvert auglýsingarhlé mátti sjá augljósa toppa og þá sérstaklega milli þess sem stigagjöf dómnefndar lauk og stigagjöf almennings hófst. Leiða má líkum að því að landsmenn hafi þar með nýtt tækifærið til að létta snögglega á sér.

Tölurnar í mælingu Veitna eru rennslismælingar úr kerfi Veitna sem fær allt sitt vatn úr vatnsbólunum í Heiðmörk.

Á þessu grafi frá Veitum má sjá tölfræðina frá því í gær.Veitur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×