Innlent

Við ætlum að breyta þjóðfélaginu

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. Þær voru meðal ræðumanna á Ingólfstorgi í gær ásamt Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formannni BSRB.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. Þær voru meðal ræðumanna á Ingólfstorgi í gær ásamt Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formannni BSRB. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Við ætlum ekki lengur að fórna okkur sjálfum fyrir þjóðfélag sem byggir á óréttlæti og arðráni. Nei, við ætlum að breyta þjóðfélaginu,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í ræðu sinni á útifundi á Ingólfstorgi í gær á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins.



Sólveig Anna fór í ræðu sinni yfir viðburðaríkan vetur kjarabaráttu og verkfalla. Hún sagði að andlýðræðislegasta fólkið á Íslandi hafi brjálast vegna krafna verkalýðshreyfingarinnar. Hreyfingin hafi verið úthrópuð og kölluð glæpafólk, landráðamenn og hyski.



„Þau sem hafa látið sem það væri náttúrulögmál að þau hafi endalaus völd til þess að ákveða lífsskilyrði okkar, afkomu, aðstæður, voru opinberuð sem vanstilltir loddarar og arðránskerfið opinberaðist sem það svo sannarlega er. Kerfi tryllts óréttlætis hefur fengið að stigmagnast síðustu áratugi,“ sagði Sólveig Anna.



Sá tími væri liðinn að verkalýðshreyfingin væri aðeins í baráttuhug einu sinni á ári.



„Sá tími er liðinn að við látum okkur nægja að bíða og biðja. Sá tími er liðinn að við látum okkur nægja að fara bónleið til að kreista út þúsundkalla frá auðstéttinni. Við erum hér og þau skulu venjast því.“



Drífa Snædal, forseti ASÍ, hélt aðalræðuna í dagskrá hátíðarhaldanna á Akureyri. Drífa lagði í ræðu sinni áherslu á að þau samfélög þar sem jöfnuður ríkti væru undantekningalaust betri samfélög en þau þar sem ójöfnuður ríkti.



„Barátta verkalýðshreyfingarinnar er því ekki barátta einstakra hópa fyrir betri kjörum heldur barátta fyrir betri heild og betra samfélagi,“ sagði Drífa.



Það væri áhyggjuefni að misrétti hafi verið að aukast undanfarna áratugi. Þá væri mikilvægt að hrinda árásum á lýðræðið. Til væru þeir sem sjái sér hag í því að grafa undan trú fólks á lýðræðinu, meðal annars með því að ala á andúð gagnvart minnihlutahópum.



„Það er gömul saga og ný að til að ná völdum er minnihlutahópum stundum att saman, eins og til dæmis öryrkjum og innflytjendum eða láglaunafólki og eldri borgurum. Það er nauðsynlegt fyrir lýðræði og mannréttindi að við látum ekki glepjast af slíkum tilraunum.“



Drífa fór einnig yfir þær breytingar sem eru að eiga sér stað á vinnumarkaði. Verkalýðshreyfingin þurfi að þróast í takt við tíðarandann til að takast á við risavaxnar áskoranir.



„Við megum aldrei gefa afslátt af áunnum réttindum, kjörum og öryggi á vinnustað heldur leita leiða til að bæta enn frekar í. Það eru stór verkefni sem bíða okkar en verkalýðshreyfingin á Íslandi er vel skipulögð grasrótarhreyfing og tilbúin í það sem koma skal.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×