Danski framherjinn Thomas Mikkelsen hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Breiðablik en Blikarnir tilkynntu þetta á heimasíðu sinni í kvöld.
Mikkelsen gekk í raðir Blika í júní í fyrra en fékk ekki leikheimild fyrr en um miðjan júlí. Þá kom hann öflugur inn í lið Blika og skoraði ellefu mörk í þrettán leikjum.
„Þau frábæru tíðindi voru að berast að danska dýnamítið Thomas Mikkelsen hefur skrifað undir nýjan 3 ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks. Núverandi samningur átti að renna út eftir þessa leiktíð þannig að Daninn sér sæng sína útbreidda í Kópavoginum næstu árin,“ segir í tilkynningu Blika.
Pepsi-Max deild karla hefst 26. apríl en Breiðablik spilar daginn eftir er þeir heimsækja Grindavík. Þeir mæta svo grönnum sínum í HK í annarri umferðinni.
Blikar semja við Mikkelsen á ný
Anton Ingi Leifsson skrifar

Mest lesið
Fleiri fréttir
