Sport

Masvidal: Gunnar er klappstýra sem ég vil berja út á bílastæði

Henry Birgir Gunnarsson í London skrifar
Jorge Masvidal rífur mikinn kjaft og aldrei áður hefur Gunnar fengið annan eins skít frá öðrum  bardagakappa.
Jorge Masvidal rífur mikinn kjaft og aldrei áður hefur Gunnar fengið annan eins skít frá öðrum bardagakappa.

Veltivigtarmaðurinn Jorge Masvidal, sem er í aðalbardaganum í London á morgun, vandaði okkar manni, Gunnari Nelson, ekki kveðjurnar og lét hann heyra það í viðtali við Vísi.

„Hverjum er ekki drullusama,“ sagði bandaríski harðjaxlinn Jorge Masvidal þegar hann var beðinn um álit sitt á bardaga Gunnars Nelson og Leon Edwards. Hann bætti svo við: „Ég vissi ekki einu sinni að þessir gaurar væru að berjast á kvöldinu mínu.“ Ægilegur töffari.

Gunnar hefur í nokkuð langan tíma óskað þess að fá að berjast við Masvidal en alltaf fengið neikvæð svör. Masvidal barðist ekkert á síðasta ári.

„Það er lygi í honum. Hann segir alls konar hluti. Ég barðist ekki við neinn á síðasta ári og það má vel vera að hann hafi reynt að hafa samband þá. Fyrir þann tíma var talað um þetta en það var verið að opinbera veikleika hans hvað eftir annað þá,“ sagði Masvidal sem telur Gunnar ekki vera nógu góðan til að berjast við sig.

„Hvern hefur Gunnar unnið sem gefur honum ástæðu til þess að kalla á svona marga menn? Hann hefur ekki unnið neinn í topp tíu. Þetta eru einhverjir Ben Askren-stælar í honum og hann telur sig eiga skilið að berjast við þá sem hann kallar á.“

Það er reyndar nokkuð augljóst á þessu spjalli að Masvidal virðist lítið vita um Gunnar sem hefur nánast aldrei skorað einhvern á hólm á ferlinum. Menn fyrir ofan hann hafa svo forðast hann eins og heitan eldinn. Masvidal þar á meðal en það breytir því ekki að hann er til í að drulla yfir Gunnar.

„Hann er bara klappstýra en ekki á meðal þeirra sem eru að berjast um titilinn. Hann þarf að þekkja sína stöðu,“ sagði hörkutólið kjaftfora frá Miami en telur hann líklegt að Gunnar fái að berjast við hann?

„Já, á bílastæðinu. Það er ekki þess virði að fara í æfingabúðir áður en maður mætir þessum gæja.“

Gunnar Nelson berst við Bretann Leon Edwards í London næstkomandi laugardag. Bardaginn er í beinni á Stöð 2 Sport. Vísir er í London og mun fylgjast ítarlega með öllu í aðdraganda bardagans.


Klippa: Masvidal drullar yfir Gunnar Nelson


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.