Sport

Gunnar: Leon vill örugglega mýkja kallinn upp

Henry Birgir Gunnarsson í London skrifar
Gunnar Nelson er bjartsýnn fyrir bardaga sinn gegn Leon Edwards í London um helgina. Hann ætlar sér að klára bardagann en ekki setja hann í hendur dómaranna.

Gunnar er á góðu róli í aðdraganda bardagans gegn Edwards og niðurskurðurinn gengið vel venju samkvæmt. Okkar maður veit að hann er að fara í hörkubardaga. Einn af þeim erfiðustu á sínum ferli gegn mjög hæfum andstæðingi.

„Hann er helvíti fjölhæfur og ég hugsa að hann vilji halda bardaganum standandi og reyna að mýkja kallinn upp. Ef hann sér einhverja góða opnun til að taka mig niður þá gæti hann reynt það. Kemur í ljós,“ segir Gunnar en hvernig ætlar hann að herja á Edwards?

„Hann yrði ekki í góðum málum undir mér. Síðan hefur hann átt erfitt gegn mönnum sem pressa.“

Gunnar og Edwards eru á svipuðum stað á sínum ferli. Edwards segist ætla að rota Gunnar og okkar maður hefur heldur engan áhuga á því að láta bardagann í hendur dómaranna.

„Það er alltaf svoleiðis hjá mér. Ég hef engan áhuga á því að leyfa dómurunum að stýrast í því hvernig bardaginn fer. Ég vil bara sjá um það sjálfur.“

Darren Till er stjarna kvöldsins en hann ætlar þrátt fyrir það ekki að missa af bardaga Gunnars og Edwards.

„Mér finnst þetta vera áhugaverður bardagi. Ég tel að þetta geti ráðist á því hvernig Gunnar Nelson mætir til leiks að þessu sinni. Stundum er hann flatur en í öðrum bardögum mylur hann andstæðinga sína í jörðina og klárar þá. Edwards er með sjálfstraust í botni og gæti stolið þessu. Ég hlakka til að sjá þetta,“ sagði Till.

Gunnar Nelson berst við Bretann Leon Edwards í London næstkomandi laugardag. Bardaginn er í beinni á Stöð 2 Sport. Vísir er í London og mun fylgjast ítarlega með öllu í aðdraganda bardagans.



MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×