Innlent

Hugbúnaðaruppfærslan á lokametrunum

Birgir Olgeirsson skrifar
Boeing 737 MAX 8 og MAX 9 í flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli við hlið Boeing 757 í síðasta mánuði. Gert er ráð fyrir níu þotum af MAX-gerð í sumaráætlun félagsins.
Boeing 737 MAX 8 og MAX 9 í flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli við hlið Boeing 757 í síðasta mánuði. Gert er ráð fyrir níu þotum af MAX-gerð í sumaráætlun félagsins. Mynd/Icelandair.

Flugvélaframleiðandinn Boeing Co hefur tilkynnt að hann sé á lokametrunum með þróun hugbúnaðaruppfærslu á flugstjórnarkerfi 737 MAX flugvélanna. Er það gert vegna hugsanlegrar villu í skynjunarbúnaði flugvélanna en svo virðist vera sem ótvíræð líkindi hafi verið með flugslysunum í Eþíópíu fyrir skömmu og í Indónesíu í fyrra.

Forstjóri Boeing Co, Dennis Muilenburg, sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann sagði hugbúnaðaruppfærsluna væntanlega og að unnið sé að þjálfun flugmanna sem er ætlað að fljúga MAX-flugvélunum þegar þær fá leyfi til að fara aftur loftið.

Uppfærslan á við MCAS-flugstjórnarkerfið sem er ætlað að koma í veg fyrir að flugvélar ofrísi.

Gögn úr flugrita flugvélar Ethiopian Airlines, sem hrapaði fyrir viku síðan, sýna fram á líkindi með flugslysinu í Indónesíu sem átti sér stað í október í fyrra þegar flugvél Lion Air hrapaði skömmu eftir flugtak. Voru báðar vélarnar af gerðinni Boeing 737 MAX 8.

Bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar á flugslysinu í Indónesíu í fyrra gefa til kynna að skynjari hafi fyrir mistök talið nef flugvélarinnar vera of hátt og sjálfstýring flugvélarinnar hafi því tekið völdin og lækkað flugið. Flugmenn flugvélarinnar hafi ekki getað hækkað flugið og því hafi hún hrapað í Jövuhaf. Gögn úr gervihnöttum hafa sýnt að vél Ethiopian Airlines hafi hækkað og lækkað flugi til skiptis þær sex mínútur sem hún var í loftinu áður en hún brotlenti.

Allar flugvélar Boeing af gerðinni 737 MAX 8 og 737 MAX 9 verða kyrrsettar þar til í maí, í fyrsta lagi. Er flugfélagið Icelandair með þrjár MAX-8 vélar í rekstri sem hafa verið kyrrsettar. Hefur forstjóri félagsins sagt Icelandair hafa svigrúm í sínum flota út marsmánuð til að bregðast við kyrrsetningu vélanna. Gert er ráð fyrir níu MAX-vélum í rekstri félagsins í sumar. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.