Menning

Borgar­leik­húsið kynnti söngleik með tónlist Bubba Morthens

Tinni Sveinsson skrifar
Bubbasöngleikurinn verður sýndur á Stóra sviðinu á næsta ári.
Bubbasöngleikurinn verður sýndur á Stóra sviðinu á næsta ári. Vísir/Vilhelm

Borgarleikhúsið boðaði til fréttamannafundar í dag þar sem söngleikur með tónlist Bubba Morthens var kynntur. Leikhúsið sýndi fundinn í beinni útsendingu og sagði tilefnið sæta miklum tíðindum í íslensku menningarlífi.

„Mikil leynd hefur verið yfir þessu verkefni og þess vegna er mikil spenna að kynna þetta í dag,“ sagði í tilkynningu leikhússins fyrir fund.

Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri steig á sviðið í upphafi fundar og sagði meðal annars í stuttri tölu söngleikinn tengjast einum merkasta listamanni þjóðarinnar. Í kjölfarið steig Bubbi fram úr skuggunum á sviðinu og hóf flutning á laginu Rómeó og Júlía. Hann söng síðan fleiri lög ásamt leikurum Borgarleikhússins.

Leikstjóri, listrænir stjórnendur og leikarar, sem munu flytja lög Bubba, verða kynntir seinna. Vinnuheiti verksins er Níu líf - Sögur af landi.

Ólafi Egill Egilsson skrifar verkið og verður það frumsýnt á Stóra sviðinu á næsta ári. 

Verkið verður um valda kafla úr sögu þjóðarinnar undanfarin 40 ár og það hvernig tónlist og textar Bubba hafa verið nátengdir þessarri sögu. 

„Saga og sögur Bubba eru kannski um leið sögur okkar allra, sögur Íslands, frá verbúð til víðáttubrjálæðis, frá blindskerjum til regnbogastræta, hlýrabolum til axlapúða og aftur til baka,” segir Ólafur Egill.

Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri kynnti verkið á Stóra sviðinu í dag. Vísir/Vilhelm


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.