Innlent

Greiða atkvæði um vinnustöðvun á veitinga- og gistihúsum

Andri Eysteinsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar. Vísir/Vilhelm
Samninganefnd stéttarfélagsins Eflingar samþykkti að láta fara fram rafræna allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar á veitinga- og gistihúsum á fundi sínum í kvöld. Vinnustöðvunin næði til allra þrifa og hreingerninga og stæði yfir frá morgni til kvölds á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars.

Efling var á meðal þeirra fjögurra verkalýðsfélaga sem sleit viðræðum við Samtök atvinnulífsins í dag. Samninganefndin samþykkti að láta atkvæðagreiðsluna fara fram á fundi sínum klukkan 20 í kvöld. Vinnustöðvunin hæfist klukkan tíu að morgni 8. mars og lyki klukkan 23:59 sama dag nema að kjarasamningar náist fyrir þann tíma. Atkvæðagreiðslunni um vinnustöðvunina skal lokið eigi síðar en kl.22:00, fimmtudaginn 28.2 2019. 

„Við veljum þennan hóp og þennan dag vegna þess að 8.mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna, þessi hópur er að mestu skipaður konum á lægstu launum sem vinna að baki brotnu til að halda hér uppi ferðamannaiðnaðinum þar sem menn hafa grætt á tá og fingri á undanförnum árum, ákvörðunin er tekin á þeim forsendum,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við Vísi.

Vinnustöðvunin myndi ná til þeirra félagsmanna Eflingar sem vinna samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi. Hún næði til allra þrifa, hreingerninga og frágangs herbergja og annarrar gistiaðstöðu á stórum hluta suðvesturhorns landsins.

Í samþykkt samninganefndarinnar segir að kjarasamningurinn sem um ræðir hafi runnið út um áramótin og viðræður við SA hafi reynt árangurslausar þrátt fyrir milligöngu ríkissáttasemjara.

„Ég hef trú á að þetta sendi gríðarlega sterk og mögnuð skilaboð inn í viðræðurnar og samfélagið þegar láglaunakonur leggja niður störf og sýna með því grundvallarmikilvægi sitt í íslensku samfélagi og íslensku efnahagslífi,“ segir Sólveig Anna.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.