Innlent

Hvíta-Rússland mögnuð upplifun

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna. Fréttablaðið/Anton Brink
„Okkar hlutverk hér er að heimsækja kjörstaði og fylgjast með kosningunum, að allt sé eins og það eigi að vera,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sem er staddur við kosningaeftirlit í Hvíta-Rússlandi.

Kolbeinn er þar á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu en þingkosningar fara fram í landinu á morgun. Þá verður kosið um 110 sæti í neðri deild þingsins en síðustu kosningar fóru fram 2016.

„Flokkakerfið hérna er öðruvísi en við eigum að venjast heima á Íslandi en ég er farinn að þekkja stóru línurnar. Þetta eru einmenningskjördæmi og mismargir frambjóðendur í hverju. Þeir eru þrír í því kjördæmi sem ég sinni eftirliti við.“

Hann segir magnaða upplifun að koma til Hvíta-Rússlands. „Sérstaklega til þessara minni bæja hvar ég er við eftirlit. Höfuðborgin Minsk er risastór borg, blanda af nokkur hundruð ára byggingum, stórkarlalegum húsum frá sovéttímanum og nútímalegum húsum með fjölda ljósaskilta.“ Sveitin sé yndisleg, fólkið vinalegt og umhverfið fallegt. „Að einhverju leyti er þetta eins og að fara aftur í tímann og þar sem ég er gömul sál hentar það mér vel,“ segir Kolbeinn að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×