Á skömmum ferli hefur tónlistarmaðurinn Auður fengið verðlaun sem Bjartasta vonin, hitað upp fyrir Post Malone, farið á tónleikaferðalag um Evrópu, komið fram á The Great Escape, Way Out West og víðar ásamt því að vinna að lagasmiðum J-Pop artista í Tókýó.
Í lok síðasta árs gaf hann óvænt út plötuna AFSAKANIR sem hefur þegar unnið til Kraumsverðlauna sem ein af plötum ársins. Nú frumsýnir hann fyrir almenningi samnefnda stuttmynd sem gerð var í samstarfi við Sjónvarp Símans. Þar kemur Auður til dyranna eins og hann er klæddur í Reykjavík samtímans.
Ástarsorg, andlegir erfiðleikar og átök eru vafin inn í einlæga og metnaðargjarna myndræna túlkun á plötunni. Myndin einkennist af löngum og fallegum skotum sem gera það að verkum að áhorfandinn upplifi sig algjörlega inn í atburðarás og tilfinningalega ferðlag myndarinnar.
Auk hans koma fram þekkt andlit af ungu kynslóð tónlistarmanna á borð við Birni, GDRN, Flóna og GKR fyrir í myndinni. Myndin er nú aðgengileg á VEVO rás listamannsins og má sjá hér að neðan.