Merkel hefur lýst því yfir að hún hyggist ekki sækjast eftir endurkjöri sem kanslari Þýskalands í næstu kosningum og hefur þegar látið af störfum sem formaður flokks síns, Kristilegra demókrata.
„Í dag vil ég þakka ykkur fyrir stuðning ykkar við Facebook-síðu mína,“ segir Merkel meðal annars í myndbandinu.
„Þið vitið að ég er ekki lengur formaður Kristilegra demókrata og þess vegna mun ég loka Facebook-síðunni minni.“
Síðasta færsla Merkel á Facebook var myndband af ræðu hennar á landsfundi Kristilegra demókrata í desember, þar sem hún lét formlega af störfum sem formaður flokksins. Virkni hennar á miðlinum hefur því verið lítil sem engin upp á síðkastið.
Aðdáendur kanslarans þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af því að Merkel hverfi alfarið af sviði samfélagsmiðla, en í myndbandinu hvatti hún fólk til þess að fylgjast áfram með störfum hennar á opinberri Facebook-síðu þýsku ríkisstjórnarinnar.
Merkel hyggst einnig halda áfram að sinna samfélagsmiðlum í gegnum Instagram-síðu sína. Fyrr í vikunni bárust fréttir af því að íslenski þrifsnapparinn Sólrún Diego væri hætt á samskiptamiðlinum Snapchat en hygðist halda sig áfram á Instagram, eða „Gramminu,“ eins og það er oft þekkt í daglegu tali hér á landi.
Það er því ljóst að Instagram virðist vera miðillinn sem stórstjörnurnar halda hvað mestri tryggð við.