Enski boltinn

Kompany segir að Manchester City þurfi ekki að kaupa mið­vörð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Vincent Kompany í búningi Manchester City.
Vincent Kompany í búningi Manchester City. vísir/getty
Vincent Kompany, fyrrum miðvörður og fyrirliði Manchester City, segir að fyrrum félag sitt þurfi ekki að kaupa miðvörð í janúar þrátt fyrir vandræði liðsins.

Kompany yfirgaf City í sumar og er nú spilandi þjálfari hjá Anderlecht í Belgíu. Það hefur hins vegar ekki gengið sem skildi og byrjunin á þjálfaraferlinum erfið hjá Kompany.

Aymeric Laporte er meiddur til lengri tíma og því eru einungis tveir miðverðir eftir í hóp Manchester City; þeir John Stones og Nicolas Otamendi.

Í stórleik helgarinnar gegn Liverpool var Fernandinho í miðverðinum en hann hefur verið að leysa af í miðverðinum undanfarnar vikur. Kompany segir að þeir þurfi ekki fleiri varnarmenn.

„Ég held að þeir þurfi ekki að kaupa annan miðvörð,“ sagði fyrrum fyrirliðinn í samtali við Sky Sports eftir leik helgarinnar. Hann segir tapið gegn Anfield um helgina skýranlegt.

„Við lendum alltaf í vandræðum á Anfield. Ég sagði á sunnudaginn að City hafi ekki unnið í 25 ár á Anfield og það er erfitt. Þetta eru tveir leikir í sama leiknum; þú ert að spila gegn frábæru liði og berjast gegn sögunni.“„Snúðu þessu við og það sama mun gerast fyrir Liverpool. Þeir eru að berjast við söguna að hafa ekki unnið deildina í 30. ár.“

„Það ætti að hjálpa City. Besta vörn City hefur verið að sækja. Það er engin ástæða fyrir því að breyta því. Um leið og þeir tengja bestu frammistöðurnar er ég viss um að sigrarnir munu hrannast inn,“ sagði Kompany.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.