Innlent

Trampólín fauk út á Grensásveg í „rólegu“ ofsaveðri

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björgunarsveitir voru komnar til síns heima fyrir miðnætti í gær, þrátt fyrir veðurofsann.
Björgunarsveitir voru komnar til síns heima fyrir miðnætti í gær, þrátt fyrir veðurofsann. Vísir/vilhelm
Það var rólegt hjá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum í gær þrátt fyrir ofsaveðrið sem þá gekk yfir. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg komu innan við tíu verkefni inn á borð sveitanna. Verkefnin sneru flest að þakklæðningum sem höfðu fokið.

Björgunarsveitarfólk var komið til síns heima fyrir miðnætti í gær, þrátt fyrir veðurofsa gærkvöldsins sem kom flugsamgöngum í Keflavík í uppnám.

Björgunarsveitir og lögregla á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út fimm sinnum í gærkvöldi vegna veðurs, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Oftast var þar um að ræða þakklæðningar, byggingarefni og þakjárn sem fokið hafði í hvassviðrinu.

Þá var tilkynnt um trampólín sem fokið hafði út á akbraut á Grensásvegi á ellefta tímanum í gærkvöldi.

Áætlað er að veðrið gangi að mestu niður í kvöld og á sunnudag, sem verður fremur rólegur. Um kvöldið má þó búast við vaxandi austanátt og á mánudag fer að rigna suðaustan og austanlands í allhvassri austan- og norðaustanátt.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×