Hoffell, flutningaskip Samskipa, komst til hafnar á Eskifirði, fyrir eigin vélarafli, um klukkan hálf tólf fyrir miðnætti, eftir að vél skipsins hafði bilað þegar það var skammt undan Reyðarfirði í gærkvöldi.
Björgunarsveitir voru kallaðar út og fylgdu björgunarbátur Landsbjargar og dráttarbáturinn Vöttur skipinu til hafnar, en áhöfninni hafði tekist að koma einhverju afli á vélinna á ný.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og beið frekari fyrirmæla á Höfn í Hornafirði, en hún var kölluð til baka þegar ljóst varð að skipið væri ekki í hættu statt.
Í skeyti frá útgerðinni segir að nú verði hafist handa með viðgerðir, en ekki sé ljóst hversu langan tíma það taki.
