Í dag má búast við hægri vestlægri átt og skúrum eða éljum fram eftir degi en síðar léttir til. Í nótt nálgast djúp lægð suðvestan úr hafi og hvessir þá hraustlega af suðvestri og fer að rigna. Þannig verður víða hvassviðri eða stormur og talsverð rigning á morgun, en hægara og þurrt að kalla fyrir austan, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
„Þeir sem hyggjast leggja land undir fór á morgun ættu því að vera við öllu búnir, einkum ef farið er um Strandir, Norðvesturland og í Öræfi, því þar geta vindhviður náð 35 til 40 m/s,“ segir jafnframt á vefnum.
Á laugardag verður lægðin komin langt norður fyrir land og leggst vindur þá í mun hægari norðanátt með skúrum eða éljum fyrir norðan, en birtir til syðra og kólnar nokkuð. Sunnudagsspáin lofar góðu veðri, en þó er útlit fyrir hressilegt íslenskt haustveður í fyrstu viku októbermánaðar.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á föstudag:
Suðvestan 15-23 m/s, hvassast NV-lands og talsverð rigning S- og V-lands, en úrkomulítið NA-til. Dregur úr vætu undir kvöld. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast syðst.
Á laugardag:
Norðvestan 8-15 m/s og skúrir eða él á N- og A-landi, en annars léttskýjað. Hiti 0 til 9 stig, mildast með S-ströndinni.
Á sunnudag:
Vestlæg átt, 5-10 m/s og léttskýjað víða um land. Hiti 1 til 6 stig að deginum, en frystir víða um kvöldið.
Á mánudag:
Gengur í sunnanhvassviðri með talsverðri rigningu og hlýnandi veðri, en vestlægari og skúrir um kvöldið og kólnar aftur.
Á þriðjudag:
Vestlæg átt og skúrir, en léttir til eystra. Á miðvikudag: Útlit fyrir vaxandi austanátt með rigningu eða slyddu.

