Rannsókn Embættis héraðssaksóknara á meintum brotum yfirmanns hjá Icelandair á lögum um verðbréfaviðskipti er lokið. Þetta staðfesti Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari við Fréttablaðið í gær.
Ólafur segir málið nú fara í ákærumeðferð þar sem tekin verður ákvörðun um hugsanlega saksókn.
Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu í júlí síðastliðnum og síðan var greint frá því að yfirmaðurinn hefði verið í slagtogi við að minnsta kosti þrjá aðra menn, sem einnig eru grunaðir.
Mennirnir eru grunaðir um að hafa nýtt sér í nokkur skipti innherjaupplýsingar sem þeir fengu hjá yfirmanni hjá Icelandair til að gera framvirka samninga með hlutabréf í Icelandair Group, aðeins fáeinum dögum áður en félagið sendi frá sér kolsvarta afkomutilkynningu til Kauphallarinnar í febrúar.
Icelandair sendi yfirmanninn strax í leyfi frá störfum þegar félagið fékk upplýsingar um að viðkomandi væri til rannsóknar. Héraðssaksóknari hefur kyrrsett tugi milljóna króna í tengslum við rannsókn málsins sem eru ætlaður hagnaður mannanna af viðskiptunum.
