Samkvæmt WorldFeng, upprunaættbók íslenska hestsins, hefur stígandi verið í sölu íslenskra hrossa erlendis. Fleiri íslenskir hestar eru samanlagt í þremur stærstu íslandshestalöndunum en á Íslandi.
„Það er mikilvægt fyrir íslenska hrossabændur að flytja út hross. Það bætir stöðu ræktenda og hrossabænda hér á landi. Í gegnum tíðina hefur alltaf ákveðið hlutfall farið út af kynbótahrossum,“ segir Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda.

„Góð hross eru að fara út á góðu verði. Góðir gripir geta selst á það góðu verði að það skili miklum virðisauka til eiganda. Það er í sjálfu sér mjög gott fyrir íslandshestaheiminn allan. Íslenski hesturinn er einnig þjóðinni mikilvægur og hefur mikið aðdráttarafl. Það sannast nú best í því að fjölmargir erlendir aðilar hafa beinlínis sest hér að vegna hestsins, eiga hér aðstöðu, húsnæði og jafnvel jarðir, til að stunda sína hestamennsku og ræktun. Það auðvitað skilar sér í bættum þjóðarhag,“ bætir Sveinn við.
Fæddum folöldum hefur verið að fækka undanfarið og segir Sveinn að markaðurinn sé að ná jafnvægi á nýjan leik eftir líkast til nokkurt offramboð á hestum síðustu ár.