Innlent

ASÍ ekki rætt hugmyndir Ragnars Þórs

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Fréttablaðið/Anton Brink
„Þessar hugmyndir hafa ekki verið ræddar innan Alþýðusambandsins. En það er stöðugt til umræðu hjá okkur hvernig hægt er að beita lífeyrissjóðunum,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, um hugmyndir Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR.

Ragnar sagði í fréttaskýringaþættinum Kveik sem sýndur var á RÚV á þriðjudagskvöld að verkalýðshreyfingin gæti beitt áhrifum sínum innan lífeyrissjóða til að knýja á um kjarasamninga. Hægt væri að beina þeim tilmælum til stjórnarmanna verkalýðshreyfingarinnar að skrúfa fyrir allar fjárfestingar á meðan óvissa ríkti eða samningar væru lausir.

Drífa segist auðvitað finna fyrir sterkum vilja til þess að lífeyrissjóðirnir taki siðferðislega ábyrgð í viðskiptalífinu. „Við höfum rætt að þeir séu ekki að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru til dæmis að borga ofurlaun. Það er sjálfsagt að taka allt til umræðu hjá ASÍ sem varðar lífeyrissjóðina.“

Fjármálaeftirlitið (FME) birti í gær tilkynningu á vef sínum þar sem minnt er á þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum til starfsemi lífeyrissjóða. Bent er á að hlutverk þeirra sé að veita viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli, örorku eða andláts.

Stjórn lífeyrissjóðs beri ábyrgð á að starfsemin sé í samræmi við lög. Það sé svo hlutverk FME að hafa eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða. Telur FME með hliðsjón af þessu að stjórnarmönnum lífeyrissjóða sé óheimilt að beita sér fyrir því að sjóðirnir séu nýttir í öðrum tilgangi en þeim sem að framan greinir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×