Innlent

Þakplötur fuku á Esjumelum og rúta í hættu í Fnjóskadal

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það hefur verið afar hvasst á höfuðborgarsvæðinu í dag. Veður er þó öllu verra á Norðurlandi.
Það hefur verið afar hvasst á höfuðborgarsvæðinu í dag. Veður er þó öllu verra á Norðurlandi. Vísir/Hanna

Nóg hefur verið að gera hjá björgunarsveitum í dag en þær hafa hafa sinnt mörgum útköllum vegna veðurs. Hópar voru kallaðir út vegna foks á Esjumelum á þriðja tímanum og þá er veður enn afar slæmt á Norðurlandi.

Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við Vísi að björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu og á sunnanverðu landinu hafi aðallega fengist við lokanir á vegum. Nú síðast voru voru hópar kallaðir út þegar þakplötur tóku að fjúka á Esjumelum og var því verkefni lokið um klukkan hálf fjögur.

Helstu verkefni björgunarsveitanna hafa þó að sögn Davíðs verið bundin við Norðurland. Sautján manna rúta var til að mynda hætt komin í Fnjóskadal í dag þar sem farangurskerra hafði farið út af veginum. Björgunarsveitir frá Akureyri og Grenivík komu fólkinu til aðstoðar, losuðu rútuna og fóru með hana til Akureyrar. Þá hefur þurft að aðstoða ökumenn og farþega bíla sem setið hafa fastir vegna erfiðrar færðar.

Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar er snjóflóðahætta á nokkrum stöðum á landinu. Lokað er á Siglufjarðarvegi, óvissustig er á Ólafsfjarðarmúli og þá er einnig snjóflóðahætta möguleg seinna í dag í Súðavíkurhlíð.

Enn eru í gildi vegalokanir á eftirtölum stöðum: Á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þverárfjalli, Siglufjarðarvegi, Öxnadalsheiði, Víkurskarði, Mývatns- og Mörudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði og Hófaskarði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.